Ástandið ekki alvarlegra í 4 áratugi

sama tíma og ríkisstjórnin hefur skorið niður fé til tækjakaupa …
sama tíma og ríkisstjórnin hefur skorið niður fé til tækjakaupa eru uppgerðir varahlutir keyptir í sparnaðarskyni á netinu í elstu tækin, sem eru orðin 17 ára. Morgunblaðið/Eggert

Ástandið á Landspítalanum hefur ekki verið jafn alvarlegt síðustu fjóra áratugi. Starfsfólk er langþreytt á viðvarandi niðurskurði og hefur miklar áhyggjur af þeirri slæmu aðstöðu sem sjúklingum og starfsmönnum er boðin. Þetta er mat 30 lækna úr prófessoraráði spítalans sem skrifa grein í Fréttablaðið í dag. Þeir segja alvarlega bresti komna í starfsemi lyflækningasviðs, stærsta sviðs Landspítala svo og í starfsemi annarra deilda, t.d. myndgreiningardeildar og hjartaskurðdeildar.

Læknarnir segja að sjúklingar, starfsfólk og almenningur hafi áhyggjur af þeirri takmörkuðu þjónustu sem hægt er að veita. „Ekki bætir úr skák að ekkert samhengi reyndist á milli kosningaloforða og efnda sem birtust í fjárlagafrumvarpinu.“

Þeir minna á að ýmsar lykileiningar spítalans séu nú reknar eftir neyðaráætlun. Ráðherrum og alþingismönnum, „sem við efumst ekki um að vilja láta gott af sér leiða“ getur vart staðið á sama um það. „Með aðstoð nema hefur langþreytt starfsfólk með auknu vinnuframlagi, haldið starfseminni gangandi,“ segir í greininni. Þessi staða hafi leitt af sér atgervisflótta og vítahring vaxandi manneklu sem ekki sér fyrir endann á.“

Læknarnir telja að enn sé hægt að sporna við landflótta lækna og annarra lykilstarfsmanna. Það standi þó tæpt og grípa þurfi strax til aðgerða sem verða að feli í sér fjárfestingu í mannauði, tækjum og aðstöðu á Landspítala.

 Landspítalinn hefur lengi þurft að forgangsraða í sinni starfsemi. Starfsfólk og sjúklingar á Landspítala kynnast því daglega, t.d. þegar sjúkrarými duga ekki til, skrifa læknarnir. „Þegar sjúkrarúmum hefur fækkað í sparnaðarskyni þarf að forgangsraða og ákveða hvaða sjúklingar þurfa mest á innlögn að halda.“

Varahlutir í gömul tæki keyptir á netinu

Svo illa er komið fyrir myndgreiningardeild spítalans að sögn læknanna að úrbætur þola enga bið. Mikilvægt tæki eru sum hver hreinlega ekki til hér á landi. Annar mikilvægur tækjabúnaður er úr sér genginn vegna mikils álags og er síbilandi, með tilheyrandi áhættu fyrir sjúklinga. „Á sama tíma og ríkisstjórnin hefur skorið niður fé til tækjakaupa eru uppgerðir varahlutir keyptir í sparnaðarskyni á netinu í elstu tækin, sem eru orðin 17 ára!“

Margra vikna bið eftir viðtali

 Læknarnir segja að á lyflækningadeild krabbameina sé ástandið mjög alvarlegt. Þar eru nú aðeins fjórir sérfræðingar að sinna störfum sem átta sinntu áður. Nýja lækna vantar strax til starfa því að óbreyttu er veruleg hætta á frekari flótta krabbameinslækna frá deildinni.

 Þá segja þeir að bið eftir fyrsta viðtali við krabbameinslækni, eftir að sjúklingur greinist með krabbamein, geti numið nokkrum vikum. „Finnst þér í lagi að læknirinn þinn hitti þig sjaldnar en æskilegt væri og þá skemur í senn en áður vegna mikils vinnuálags? Þetta er sú staða sem krabbameinssjúklingar á Íslandi þurfa nú að búa við.“ 

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert