Öllum verið sleppt úr haldi

Frá Garðahrauni í morgun.
Frá Garðahrauni í morgun. mbl.is/Júlíus Sigurjónsson

Lögreglan á höfuðborgarsvæðinu segir að 25 hafi verið handteknir í aðgerðum lögreglunnar í Garðahrauni í Garðabæ í dag. Alls sneru níu þeirra aftur þar sem þeir héldu uppteknum hætti. Fólkið var þá handtekið öðru sinni. Enginn var í haldi lögreglu þegar aðgerðunum lauk á sjötta tímanum. 

Fram kemur í tilkynningu frá lögreglunni að í Garðahrauni hafi verið samankominn hópur fólks til að mótmæla lagningu nýs Álftanesvegar. Hinir handteknu hafi virt að vettugi margítrekuð fyrirmæli lögreglu um að yfirgefa merkt vinnusvæði og hindruðu þannig framkvæmdir.

„Hin handteknu, karlar og konur á ýmsum aldri, voru flutt á lögreglustöð þar sem mál þeirra biðu frekari afgreiðslu. Að því loknu var fólkinu sleppt úr haldi lögreglu, en níu þeirra sneru aftur í Garðahraun og héldu uppteknum hætti. Voru hinir sömu þá handteknir öðru sinni, en aðgerðum lögreglu á vettvangi lauk á sjötta tímanum í dag. Enginn var í haldi lögreglu þegar aðgerðunum hennar lauk í Garðahrauni,“ segir í tilkynningu.

„Lögreglan var með nokkurn viðbúnað vegna aðgerðanna í dag, en hún lagði mikla áherslu á að tryggja öryggi á vettvangi og koma þannig í veg fyrir slys á fólki og gekk það eftir. Rétt er að undirstrika að fólk var margítrekað beðið um að yfirgefa vinnusvæðið, en þeir sem hunsuðu fyrirmæli lögreglu voru handteknir, eins og að framan greinir,“ segir ennfremur.

Fordæma aðgerðir lögreglu og vilja að innanríkisráðherra setji lögbann

Í ályktun sem Ungir umhverfissinnar sendu frá sér í kvöld eru aðgerðir lögreglunnar fordæmdar harðlega. Þeir segja að veglagningin þjóni ekki almannahagsmunum, réttaróvissu ríki.

„Samskipti lögreglunnar við mótmælendur Ungra umhverfissinna í Garðahrauni í dag einkenndust af ruddaskap og virðingarleysi. Þá voru lögreglumenn ófærir um að vísa í nokkur lög aðgerðum sínum til stuðnings,“ segir í tilkynningu frá Ungum umhverfissinnum.

Þeir hvetja janframt Hönnu Birnu Kristjánsdóttur innanríkisráðherra til að setja lögbann á framkvæmdina á meðan lögmæti hennar sé fyrir dómstólum.

„Við hvetjum til umræðu á Alþingi og í fjölmiðlum um forsendur nýs Álftanesvegar og um álit almennings á framkvæmdinni,“ segir í tilkynningu. 

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert