Íslenskur prófessor í óbyggðum Grikklands

Á hlaupum.
Á hlaupum.

Ágúst Kvaran, prófessor í efnafræði við Háskóla Íslands, hefur í áratugi haft yndi af því að hlaupa. Í fyrra varð hann sextugur en fótbrotnaði illa og hélt að hlaupaferli sínum væri lokið. Með þrotlausum æfingum tókst honum þó að ná aftur upp fyrri krafti og um síðustu helgi tók hann þátt í 100 mílna óbyggðahlaupi í norðurhluta Grikklands og lauk því á rétt rúmum 38 klukkustundum. Það má því segja að með þessu sé hann að fagna stórafmæli sínu ári seinna.

Erfiðara en búist var við

Ágúst fótbrotnaði í fyrra og þurfti að gangast undir hnéaðgerðir og hélt að hlaupaferlinum væri lokið en með styrktaræfingum náði hann aftur fyrri krafti. Hann hóf að undirbúa sig fyrir hlaupið í janúar og jók jafnt og þétt hlaupalengdirnar. Ágúst segir að hlaupið hafi verið ævintýralegt og reynt mjög á viljastyrk hans en hann var eini Íslendingurinn í hlaupinu. „Þetta var mun erfiðara en ég bjóst við. Þetta er það lengsta sem ég hef hlaupið eða um 164 km. Hlaupið var vægast sagt ævintýralegt og krefjandi. Þetta var haldið úti í óbyggðum og landslagið var mjög bratt, hæðótt og stígarnir erfiðir. Ég þurfti oft að vega mig upp á steina og kletta með höndunum. Það þyrmdi því yfir mig í fyrrihluta hlaupsins og oft var ég við það að gefast upp en alltaf ákvað ég svo að halda áfram. Þegar hlaupið var hálfnað sá ég að ég átti einhvern möguleika þannig að þá varð ekki aftur snúið. Maður þurfti því fyrst að yfirstíga andlega þröskuldinn,“ segir Ágúst.

Ágúst svaf ekkert í 38 klukkustundir meðan á hlaupinu stóð. „Maður þurfti að halda vel á spöðunum og það var enginn tími til þess að leggja sig á leiðinni. Maður stoppaði í mesta lagi í 15 til 20 mínútur til þess að nærast.“ Ágúst var heppinn með veður. „Mér leist ekki alveg nógu vel á veðrið dagana fyrir hlaupið. Það var búið að rigna mjög en það er erfiðara að hlaupa í mikilli bleytu því þá blotnar maður í lappirnar og hætt er við að maður fái blöðrur og annað slíkt. En það rættist þó úr veðrinu og búið var að stytta upp þegar hlaupið hófst og við fengum alveg fínasta veður. Það var hins vegar mikill hitamunur á milli dags og nætur. Það var ansi heitt á daginn en mjög kalt á nóttunni.“

Villtist í dimmum skógi

Litlu munaði að Ágúst týndist í óbyggðum Grikklands. „Leiðin var merkt með glitmerkjum og við bárum ennisljós til þess að rata um í myrkrinu. Ég hafði talsverðar áhyggjur af því að villast og lenti í því nokkrum sinnum. Þegar stutt var eftir af hlaupinu var ég aleinn í dimmum skógi og þá hélt ég að ég væri villtur.  Ég öskraði og byrjaði að flauta með flautu sem hlauparar fengu en enginn heyrði í mér. Sem betur fer kom Grikki sem hafði hlaupið þetta áður og rataði. Hann gat því hjálpað mér út úr þessum ógöngum. Annars hefði ég ekki klárað hlaupið á réttum tíma.“

Þá voru óbyggðirnar ekki alveg lausar við hættur. „Það var líka búið að vara okkur við björnum og úlfum á svæðinu en ég varð ekki var við þá. Ég heyrði reyndar tvisvar einhver hljóð en þá tók maður upp flautuna og flautaði til þess að fæla dýrin í burtu.“

„Það var ólýsanleg tilfinning að koma í mark eftir allan undirbúninginn og erfiðið. Ég var mjög þreyttur og maður er rétt núna að átta sig á þessu öllu saman. Fyrst eftir hlaupið hélt ég að ég myndi aldrei gera neitt þessu líkt aftur en svo stend ég mig þó að því núna að vera farinn að leiða hugann að næsta hlaupi,“ segir Ágúst að lokum og hlær.

Ágúst á góðri stund fyrir hlaup.
Ágúst á góðri stund fyrir hlaup.
Ágúst Kvaran rétt áður en hlaupið hófst.
Ágúst Kvaran rétt áður en hlaupið hófst.
Aðstæður voru oft á tíðum erfiðar og undirlagið ójafnt og …
Aðstæður voru oft á tíðum erfiðar og undirlagið ójafnt og hart. Svo var líka hætta á að villast. Hér er Ágúst að hlaupa í skógi.
Alsæll kominn í mark. Hér er Ágúst ásamt eiginkonu sinni …
Alsæll kominn í mark. Hér er Ágúst ásamt eiginkonu sinni Ólöfu Þorsteinsdóttur.
mbl.is

Bloggað um fréttina