Ekkert gefið upp um viðbúnað

Devils Choice.
Devils Choice.

Norðmennirnir þrír, sem handteknir voru í Leifsstöð við komuna til landsins í gær, eru farnir úr landi. Um er að ræða meðlimi í samtökunum Devils Choice sem eru stuðningssamtök Vítisengla. Almennt er litið á Devils Choice sem glæpasamtök. Lögreglan á Suðurnesjum vill ekkert gefa út um viðbúnað í Leifsstöð í dag.

Mennirnir komu hingað til lands til að taka þátt í veisluhöldum hjá systursamtökum sínum á Íslandi. Íslensku samtökin hétu áður Hog Riders en tóku upp nafnið Devils Choice MC Iceland árið 2011. Samkvæmt því sem kemur fram á vefsvæði samtakanna eru þau að ná töluverðri útbreiðslu á Evrópu og þá helst á Norðurlöndunum. 

Ekki hefur náðst í neinn hjá samtökunum íslensku í morgun.

mbl.is