Fjölgar í forystuslagnum í Reykjavík

Hildur Sverrisdóttir býður sig fram í 1. sæti í prófkjöri …
Hildur Sverrisdóttir býður sig fram í 1. sæti í prófkjöri Sjálfstæðisflokksins í Reykjavík.

Hildur Sverrisdóttir borgarfulltrúi hefur ákveðið að bjóða sig fram í 1. sæti í prófkjöri Sjálfstæðisflokksins í Reykjavík. Hildur fer fram gegn Júlíusi Vífli Ingvarssyni, Þorbjörgu Helgu Vigfúsdóttur og Halldór Halldórssyni, sem öll falast eftir 1. sætinu hjá Sjálfstæðisflokknum.

Hildur hefur setið í borgarstjórn síðan í september, þegar hún tók við af Gísla Marteini Baldurssyni, en hún var varaborgarfulltrúi frá 2010. Hún situr í umhverfis- og skipulagsráði og er formaður hverfisráðs Vesturbæjar. 

Stefnulaus borgarstjórn með óljós markmið

„Ég býð mig fram í forystusæti því að ég tel að þannig geti ég best orðið að liði við að tryggja áhrif sjálfstæðisstefnunnar á stjórn borgarinnar. Í þessu prófkjöri er mikilvægast að stillt sé upp öflugum lista sem hefur burði til vera í meirihluta á næsta kjörtímabili,“ segir Hildur.

Til að svo megi verða telur Hildur að nálgast verði borgarmálin á nýjan hátt og taka stöðuna út frá þeim raunveruleika sem sé í borginni í dag. „Staðreyndin er sú að í Reykjavík er margt ljómandi vel gert og sem borgarbúum hugnast. Á það verður að hlusta. Það þarf að hafa pólitískt hugrekki til að vera með góðum málum og á móti vondum, sama hvaðan þau koma,“ segir Hildur.

Hún gagnrýnir núverandi borgarmeirihluta fyrir að vera stefnulausan, með óljós markmið og enga forgangsröðun. „Stefnumótun er færð of mikið yfir á embættismannakerfið sem veldur því að reikningurinn til að láta enda ná saman er alltof oft sendur borgarbúum. Svo oft reyndar að á kjörtímabilinu hafa skattar og gjöld á meðalfjölskyldu í Reykjavík hækkað um sem nemur matarinnkaupum hennar í hálft ár.“

Lögfræðingur með innlenda og erlenda reynslu

Hildur er 35 ára og lögfræðingur að mennt. Hún starfaði lengi sem lögfræðingur og lögmaður hjá fjölmiðlafyrirtækinu 365. Með laganámi starfaði hún sem framkvæmdastjóri V-dagsins, sem berst gegn kynferðisbrotum og einnig sem framkvæmdastjóri Reykjavík Dance Festival. Þar á undan gegndi hún stöðu verkefnisstjóra Jafningjafræðslunnar fyrir ÍTR.

Hildur hefur starfað erlendis, meðal annars á lögmannsstofu í London og í flóttamannabúðum í Serbíu. Hildur hefur um nokkurt skeið skrifað Bakþanka í Fréttablaðið og hún ritstýrði bókinni Fantasíur sem kom út í fyrrasumar.

mbl.is

Bloggað um fréttina