Líkur á norðurljósasýningu

Líkur eru á að norðurljós sjáist á himni um landið suðvestanvert í kvöld og annað kvöld, en samkvæmt norðurljósaspá Veðurstofunnar mælist virknin talsverð bæði báða daga. Skýjabakki sem hefur verið yfir suðvesturhluta landsins er að leysast upp og búast má við heiðríkju.

Einar M. Einarsson, veðurfræðingur hjá Veðurstofu Íslands, tekur fram í samtali við mbl.is að ekki sé ávallt á vísan að róa í þessum efnum, enda hefur reynst erfitt að spá um norðurljós.

Einar bendir á, að undanfarna tvo sólarhringa hafi t.d. engin norðurljósavirkni mælst þrátt fyrir að spáin hafi gert ráð fyrir talsverðri virkni. 

Aðspurður segir hann að það séu sæmilegar líkur á norðurljósasýningu í kvöld og á morgun. „Það getur alltaf klikkað,“ tekur Einar hins vegar fram er hann slær þann varnagla að spáin sé ekki ávallt rétt.

Nú er bara að bíða og sjá.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert