Sigur í prófkjöri er ekki ávísun á borgarstjórastólinn

Gefi Jón Gnarr borgarstjóri kost á sér til endurkjörs mun …
Gefi Jón Gnarr borgarstjóri kost á sér til endurkjörs mun hann mæta mikið breyttum lista sjálfstæðismanna. mbl.is/Eva Björk

Fyrirfram myndi ég halda að baráttan um efsta sætið stæði milli Júlíusar Vífils Ingvarssonar og Halldórs Halldórssonar,“ segir Grétar Þór Eyþórsson, stjórnmálafræðingur og prófessor við Háskólann á Akureyri, um prófkjör Sjálfstæðisflokksins í Reykjavík en frestur til að tilkynna framboð rann út síðdegis á föstudag. Auk þeirra tveggja gefa Hildur Sverrisdóttir og Þorbjörg Helga Vigfúsdóttir kost á sér í forystusætið.

„Júlíus Vífill hefur verið í framarlega í forystusveit flokksins í borginni lengi og það hlýtur að veita honum ákveðna möguleika,“ segir Grétar.

„Halldór er líka mjög öflugur frambjóðandi. Hann hefur áunnið sér mikla virðingu innan sveitarstjórnargeirans. Hann var lengi bæjarstjóri á Ísafirði og hefur staðið sig mjög vel sem formaður Samtaka sveitarfélaga en sumir segja að það embætti sé ígildi ráðherrastóls. Það var það alla vega í tíð Vilhjálms Þ. Vilhjálmssonar. Halldór hlýtur því að eiga góða möguleika, þó að ég átti mig ekki á því hvort hann hafi burði til að fella Júlíus Vífil.“

Grétar er ekki í vafa um að áhrifamenn innan flokksins hafi hvatt Halldór til að fara fram. „Spennandi verður að sjá hvort maður geti komið vestan frá Ísafirði og unnið prófkjör Sjálfstæðisflokksins í borginni.“

Telur Hildi eiga minnsta möguleika

Grétari þykir Þorbjörg Helga og Hildur ekki eins líklegar til að fara með sigur af hólmi. Þær séu reynsluminni. „Það má þó vel vera að stemning myndist fyrir því að kona leiði listann. Þá verður Þorbjörg Helga að teljast líklegri, þar sem hún hefur verið lengur í borgarstjórn en Hildur sem er nýgræðingurinn í hópnum. Hildur á að mínu mati minnsta möguleika af þessum fjórum.“

Besti flokkurinn hefur verið að mælast með ívið meira fylgi en Sjálfstæðisflokkurinn í borginni í síðustu skoðanakönnunum. Spurður hvort einhver þessara kandídata fjögurra sé líklegri en annar til að gera Sjálfstæðisflokkinn aftur að stærsta flokknum í borginni kveðst Grétar ekki sannfærður um það. „Ég er ekki viss um að neinn af þessum frambjóðendum komi til með að breyta heildarmyndinni í vor. Ef það er svona mikil bylgja til Besta flokksins ennþá sé ég ekki að einhver ákveðin persóna úr röðum sjálfstæðismanna komi til með að breyta því.“

Gildir þá einu hvort Jón Gnarr komi til með að bjóða sig fram aftur eður ei. „Ég yrði ekkert hissa þótt hann hætti en ég held ekki að það yrði neinn dauðadómur yfir Besta flokknum. Þó að borgarstjórinn hafi meira og minna verið að sprella á kjörtímabilinu hafa aðrir í flokknum gengið í mál og gert hluti. Þess vegna hefur samstarfið við Samfylkinguna gengið allt þetta kjörtímabil. Sigur í prófkjöri Sjálfstæðisflokksins er því alls ekki ávísun á borgarstjórastólinn.“

Þessi grein birtist
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Þessi grein birtist
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Kauptu vikupassa

Lestu meira með vikupassa!

Fáðu þér vikupassa fyrir 2.090 kr. og þú færð aðgang að öllu efni úr blaði dagsins í dag og næstu 6 daga.

Kaupa vikupassa

Aðrar áskriftarleiðir »