Hluti vélanna kominn í gang aftur

„Einhverjar vélarnar voru komnar í gang síðast þegar ég vissi en ekki allar,“ segir Sigurður R. Ragnarsson, framkvæmdastjóri mannvirkjasviðs ÍAV, en fyrirtækið sér um framkvæmdir við nýjan Álftanesveg. Þegar hefja átti störf í morgun kom í ljós að brotin höfðu verið eldsneytislok á fimm vinnuvélum og sandur settur í eldsneytistankana.

„Við erum auðvitað á fullu að reyna að koma þessu í gang aftur. Vélarnar hefja störf að nýju um leið og þær komast í gang. Við erum með fullt af mannskap sem situr bara og bíður þannig að við erum að reyna að lágmarka tjónið sem af þessu hlýst,“ segir hann. Málið uppgötvaðist áður en vélarnar voru settar í gang en tjónið hefði væntanlega orðið miklu meira ef það hefði verið gert.

Skemmdarverkin voru tilkynnt til lögreglu snemma í morgun þegar það uppgötvaðist og er málið í rannsókn. Ekkert liggur fyrir um hverjir hafi verið að verki. Hraunavinir, sem verið hafa fremstir í flokki í mótmælum gegn vegaframkvæmdunum segjast ekki hafa valdið skemmdunum.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert