Ellefu samtök styðja Hraunavini

Búið er að ryðja veginn í gegnum hraunið.
Búið er að ryðja veginn í gegnum hraunið. mbl.is/Rax

Ellefu náttúruverndarsamtök og félög á Íslandi lýsa yfir eindregnum stuðningi við baráttu Hraunavina, Landverndar, Náttúruverndarsamtaka Íslands og Náttúruverndarsamtaka Suðvesturlands gegn lagningu nýs Álftanesvegar í Gálgahrauni/Garðahrauni.

 Í yfirlýsingu frá samtökunum segir að Vegagerðin hafi byrjað að ryðja leið gegnum hraunið með stórvirkum vinnuvélum mánudaginn 21. október. Mótmælendur voru handteknir af lögreglu, fluttir á lögreglustöð og sektaðir.  „Sumir voru látnir sæta einangrun í allt að fjórar klukkustundir. Á sjötta tug lögreglumanna tók þátt í aðgerðunum. Það er einsdæmi í Íslandssögunni að vegur sé lagður undir lögregluvernd,“ segir í yfirlýsingunni.

 Þá segir: Dómstólar munu á næstunni kveða úr um lögmæti nýs Álftanesvegar. Við mótmælum því að framkvæmdum skuli fram haldið á meðan dómstólar hafa ekki kveðið upp úrskurð sinn.

 Gálgahraun er á náttúruminjaskrá, nýtur sérstakrar verndar samkvæmt lögum, geymir verðmætar menningarminjar sem tengjast Jóhannesi Kjarval listmálara og þar liggja fornir stígar sem varðveita sögu þjóðarinnar í 1100 ár. Gálgahraun er einstök náttúruperla á höfuðborgarsvæðinu sem ber að varðveita.

 Við krefjumst þess að framkvæmdir við nýjan Álftanesveg verði þegar stöðvaðar.“

 Undir yfirlýsinguna skrifa:

Eldvötn – samtök um náttúruvernd í Skaftárhreppi,
Framtíðarlandið,
Fuglavernd,
Félag um verndun hálendis Austurlands,
Náttúruvaktin,
Náttúruverndarsamtök Suðurlands,
Náttúruverndarsamtök Austurlands NAUST,
Samút - samtök útivistarfélaga,
Sjálfboðaliðasamtök um náttúruvernd,
Umhverfisvaktin við Hvalfjörð,
Vinir Þjórsárvera

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert