Dómur staðfestur yfir Karli Vigni

Karl Vignir Þorsteinsson
Karl Vignir Þorsteinsson mbl.is/Rósa Braga

Hæstiréttur hefur staðfest 7 ára fangelsi yfir Karli Vigni Þorsteinssyni en hann var sakfelldur fyrir fyrir mjög alvarleg kynferðisbrot gegn þremur mönnum. Brotin voru mörg, stóðu yfir langt tíma og beindust gegn andlega fötluðum mönnum. Þá var brotavilji hans talinn einbeittur. Miskabótakröfur tveggja fórnarlamba Karls voru hækkaðar úr 900 þúsund og 1.100 þúsund krónum upp í 1,2 milljónir króna. Bætur þriðja fórnarlambsins, 600 þúsund krónur, voru staðfestar.

Karl Vignir var sakfelldur fyrir kynferðisbrot gegn þremur mönnum. Brot hans eru talin mjög alvarleg, þau voru mörg og stóðu yfir langt tímabil. Brotavilji hans var einnig talinn einbeittur og brot hans beindust að andlega fötluðum mönnum sem treystu honum og litu á hann sem vin sinn. Karl Vignir á sér engar málsbætur, að mati dómsins.

Í ákæru segir að Karl Vignir hafi gerst sekur um nauðgun og kaup á vændi, með því að hafa ítrekað á tímabilinu frá árinu 1995 til 2011, stundum með nokkurra mánaða millibili, haft kynferðismök við karlmann og notfært sér að hann gat ekki spornað við verknaðinum sökum andlegrar fötlunar. Karl Vignir greiddi manninum fyrir hvert skipti með peningum, strætisvagnamiðum, áfengi eða sígarettum.

Þá var hann ákærður fyrir nauðgun og kaup á vændi, með því að hafa ítrekað frá árinu 2007 fram í desember 2012 haft kynferðismök við annan karlmann og við það notfært sér að hann gat ekki spornað við verknaðinum sökum andlegrar fötlunar en Karl Vignir greiddi honum fyrir hvert skipti með peningum á bilinu 500-3000 kr., mat, áfengi eða sígarettum.

Einnig var ákærður fyrir nauðgun, með því að hafa í nokkur skipti á árunum 2006 til 2007, á almenningssalernum á Lækjartorgi, í Bankastræti og á Hlemmi, haft kynferðismök við þriðja manninn og við það notfært sér að hann gat ekki spornað við verknaðinum sökum andlegrar fötlunar.

Að endingu var hann ákærður fyrir nauðgun og kaup á vændi, með því að hafa a.m.k. í 4 skipti á tímabilinu frá sumrinu 2011 fram í desember 2012, haft kynferðismök við fjórða manninn og við það notfært sér að hann gat ekki spornað við verknaðinum sökum andlegrar fötlunar en Karl Vignir greiddi honum á bilinu 3-5.000 kr. fyrir hvert skipti.

Karl Vignir var sem áður segir sakfelldur fyrir að brjóta gegn þremur mannanna, en hann var sýknaður af einni ákærunni, brot framin á árunum 2006 til 2007, vegna þess að brotin voru fyrnd þegar rannsókn hófst.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert