Mál á hendur Birki heldur áfram

Glitnismenn fyrir dómi ásamt verjendum sínum.
Glitnismenn fyrir dómi ásamt verjendum sínum. mbl.is/Rósa Braga

Héraðsdómur Reykjavíkur hafnaði í morgun frávísunarkröfu Birkis Kristinssonar en hann er einn fjögurra starfsmanna Glitnis sem sérstakur saksóknari ákærði vegna 3,8 milljarða króna lánveitingar bankans til félagsins BK-44. Úrskurðurinn er ekki kæranlegur og heldur málið því áfram fyrir dóminum.

Frávísunarkrafan var byggð á því að réttarstöðu Birkis var breytt úr sakborningi í vitni í desember 2011 og síðan aftur í sakborning í júní 2012. Með því að færa réttarstöðuna úr sakborningi í vitni væri verið að fella málið á hendur Birki niður og ekki hægt að taka það aftur upp nema ný gögn kæmu fram.

Við munnlegan málflutning sagði lögmaður Birkis meðal annars að lögregla hefði ekki lagt nein ný gögn fram sem réttlættu að réttarstöðu Birkis væri breytt aftur og hann ákærður. Ef því væri þó haldið fram hefði ekki verið sýnt fram á með óyggjandi hætti að gögnin hefðu áhrif í málinu. 

Sérstakur saksóknari sagði hins vegar að nýjar upplýsingar hefðu komið fram og þar af leiðandi ný gögn sem leiddu til þess að málið á hendur Birki var tekið upp að nýju. 

Niðurstaða dómara málsins var að lögregla hafi svigrúm við mat í þessum efnum og því hafi verið heimilt að taka rannsókn málsins upp að nýju. Var frávísunarkröfunni því hafnað. 

Þar sem úrskurðurinn er ekki kæranlegur heldur málið áfram hjá Héraðsdómi Reykjavíkur. Fari svo að málinu verði áfrýjað til Hæstaréttar eftir að dómur er upp kveðinn er hins vegar hægt að fá endurskoðun á þessum úrskurði héraðsdóms.

Frétt mbl.is: Glitnismenn neituðu sök

mbl.is