Vinna hafin við ESB-skýrslu

Gunnar Bragi Sveinsson, utanríkisráðherra.
Gunnar Bragi Sveinsson, utanríkisráðherra. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Vinna við úttekt sem ríkisstjórnin hefur boðað á stöðu viðræðna um aðild Íslands að Evrópusambandinu er hafin. Þetta kemur fram í skriflegu svari Gunnars Braga Sveinssonar, utanríkisráðherra, við fyrirspurn Óla Björns Kárasonar, varaþingmanns Sjálfstæðisflokksins.

„Vinna við úttekt á stöðu aðildarviðræðna við Evrópusambandið og þróun mála innan þess er hafin. Samningur hefur verið undirritaður við Hagfræðistofnun Háskóla Íslands um framkvæmd úttektarinnar. Samninginn, ásamt minnisblaði sem markar hinn efnislega ramma hennar, er að finna á heimasíðu utanríkisráðuneytisins,“ segir í svarinu. Ráðherrann var ennfremur inntur eftir því hvenær úttektin lægi fyrir og sagðist hann stefna að því að kynna skýrslu Hagfræðistofnunar í janúar á næsta ári.

25 milljónir auk virðiaukaskatts og ferðakostnaðar

Fram kemur í samningi utanríkisráðuneytisins við Hagfræðistofnun HÍ að stofnunin sjái alfarið um skipulag verkefnisins og þar á meðal ráðningi innlendra og erlendra sérfræðinga og greiðslu kostnaðar auk alls utanumhalds þess. Utanríkisráðuneytið greiðir Hagfræðistofnun HÍ samtals 25 milljónir króna að viðbættum virðisaukaskatti fyrir verkefnið auk ferðakostnaðar. Fram kemur að allar ferðir tengdar verkefninu séu háðar samþykki ráðuneytisins og að haga skuli málum þannig að sem hagkvæmust kjör fáist hverju sinni. Í minnisblaði kemur fram að Hagfræðistofnun reikni með að ferðakostnaður kunni að verða 2,4 milljónir króna.

Verkefninu er skipt í þrjá meginhluta; stöðu viðræðnanna við Evrópusambandið eins og þær standa í dag, þróunar sambandsins á síðastliðnum árum og framtíðarþróunar þess. Gert er ráð fyrir að lokaskýrsla Hagfræðistofnunar liggi fyrir eigi síðar en 15. janúar næstkomandi.

Samningurinn við Hagfræðistofnun Háskóla Íslands

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert