„Lýðræðinu ekki til framdráttar að ráðast á forseta Íslands“

Sigrún Magnúsdóttir, þingmaður Framsóknarflokksins.
Sigrún Magnúsdóttir, þingmaður Framsóknarflokksins. mbl.is/Ómar Óskarsson

„Það er ekki lýðræðinu eða stjórnskipun vorri til framdráttar að ráðast á forseta Íslands með þessum hætti,“ sagði Sigrún Magnúsdóttir, þingflokksformaður Framsóknarflokksins, um gagnrýni þeirra Steingríms J. Sigfússonar og Össurar Skarphéðinssonar á störf forseta Íslands, Ólafs Ragnars Grímssonar. 

Í nýjum endurminningabókum sínum fara þeir Steingrímur og Össur hörðum orðum um Ólaf Ragnar. Segir Steingrímur til dæmis að forsetinn tali stundum á erlendri grundu líkt og hann fari með framkvæmdavaldið.

Á þingi í dag sagði Sigrún að tilgangur þeirra væri eflaust að réttlæta störf sín og framgöngu í Landsdómsmálinu. „Ýmislegt er dregið fram úr skúmaskotum. En forkastanlegust er aðför þeirra að forseta lýðveldisins. Það er ef til vill skiljanlegt að þeim svíði að hafa ekki komið fram vilja sínum að láta undan Bretum í Icesave-málinu. En þar bjargaði frumkvæði forsetans og grasrótarsamtökin InDefence okkur frá verulegu tjóni,“ sagði Sigrún.

„Væri ekki frekar ástæða til að þakka honum fyrir árvekni og djörfung? Það er ekki lýðræðinu eða stjórnskipun vorri til framdráttar að ráðast á forseta Íslands með þessum hætti.“ Ekki bæti það heldur stjórnmálaumræðuna í landinu, að sögn Sigrúnar.

„Á góðum stundum tala og töluðu þessir stjórnmálamenn um nauðsyn þess að gera stjórnmálaumræðuna hófstilltari, málefnalegri og opnari. Öllum þessum gildum er kastað fyrir róða til þess að koma höggi á forseta Íslands.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert