Lánið „mútugreiðsla“ til Al Thani

Frá upphafi réttarhaldanna í morgun.
Frá upphafi réttarhaldanna í morgun. mbl.is/Rósa Braga

Uppbygging viðskipta með hluti í Kaupþingi var til þess gerð að fela þátt Ólafs Ólafssonar í þeim. 50 milljón dollara lán til sjeiks Al Thani átti að vera greiðsla til hans til að hann legði nafn sitt við viðskiptin. Þetta kom fram í hljóðrituðu símtali sem saksóknari í Al Thani-málinu spilaði.

Þegar Halldór Bjarkar Lúðvígsson, þáverandi viðskiptastjóri útlánasviðs, kom í vitnastúku til að gefa skýrslu spilaði Björn Þorvaldsson, saksóknari fyrir dóminn upptöku af símtali á milli Halldórs Bjarkar og innri endurskoðanda bankans. Þar útskýrði hann fyrir endurskoðandanum viðskiptin við sjeik Al Thani og Ólaf Ólafsson með hlutabréf bankans.

Þar heyrðist Halldór Bjarkar segja að uppbygging viðskiptanna hafi verið til að fela það að Ólafur Ólafsson ætti helmingshlut í þeim. Eina leiðin til að þau fengjust samþykkt væri að Al Thani væri eini aðilinn að þeim. 50 milljón dollara lán til félags sjeiksins væri í raun greiðsla (e. kickback) til þess að hann léði viðskiptunum nafn sitt.

Að því loknu lýsti Halldór Bjarkar því að aðkoma sín að viðskiptunum hafi hafist með fundi með Hreiðari Má Sigurðssyni, þáverandi forstjóra Kaupþings, og Magnúsi Guðmundssyni, þáverandi forstjóra Kaupþings í Lúxemborg meðal annars. Hreiðar Már og Magnús hafi lýst uppbyggingu viðskiptanna og gefið fyrirmæli um þau. Í framhaldinu hafi verið unni að þeim bæði á Íslandi og í Lúxemborg.

Fyrirmæli um að greiða út lánið komu frá Hreiðari Má að sögn Halldórs Bjarkars. Hann hafi tjáð sér að hann þyrfti ekki að hafa áhyggjur af því hvort að samþykki frá lánanefnd bankans lægi fyrir láninu.

Getgátur þegar hann leit yfir uppbygginguna

Verjandi Hreiðars Más benti á að engin gögn væru um samtalið sem Halldór Bjarkar vísaði þar í og að sjálfur kannaðist forstjórinn fyrrverandi ekki við að það hafi átt sér stað. Halldór Bjarkar kunni ekki skýringar á því hverju sætti en endurtók að fyrirmæli um að greiða lánið út strax hefði komið frá Hreiðari Má og hann hafi sagt sér að hafa ekki áhyggjur af samþykktum fyrir því.

Spurður að því hvað hann hafi átt við með að 50 milljón dollara lán til félags Al Thani væri „kickback“ til sjeiksins fyrir að nafn hans væri notað sagði Halldór Bjarkar að hann hefði átt við greiðslur, stundum kallaðar mútur.

Lögmaður Hreiðar Más innti Halldór Bjarkar eftir því hvaða heimildir hann hefði fyrir því að uppbygging viðskiptanna hafi verið til þess gerð að fela þátt Ólafs í þeim og að um mútur hafi verið að ræða til Al Thani. Halldór Bjarkar svaraði því til að um að getgátur hans væri að ræða þegar hann hafi litið til baka yfir viðskiptin.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert