Skipað í stjórnarskrárnefnd

Sigurður Líndal er formaður nefndarinnar.
Sigurður Líndal er formaður nefndarinnar. Árni Sæberg

Forsætisráðherra skipaði í dag nýja stjórnarskrárnefnd í samræmi við samkomulag allra þingflokka frá því í sumar. Í nefndinni sitja fulltrúar tilnefndir af þeim stjórnmálaflokkum sem sæti eiga á Alþingi, nánar tiltekið fjórir fulltrúar tilnefndir af ríkisstjórnarflokkunum og fjórir af stjórnarandstöðu. Formaður er skipaður af forsætisráðherra án tilnefningar.

Samkvæmt samkomulagi þingflokka frá 2. júlí 2013 um meðferð stjórnarskrárbreytinga 2013-2017, í tengslum við afgreiðslu frumvarps til stjórnarskipunarlaga skal nefndin hafa hliðsjón af vinnu undanfarinna ára um efnið, m.a. tillögum stjórnlagaráðs og stjórnlaganefndar, niðurstöðum ráðgefandi þjóðaratkvæðagreiðslu og starfi þeirrar stjórnarskrárnefndar sem starfaði 2005-2007. Þá er ætlunin að nýlegar stjórnarskrárbreytingar í nágrannalöndum verði einnig hafðar til hliðsjónar, sem og önnur þróun í stjórnarskrármálum á alþjóðavettvangi. Nefndin skal gera stjórnskipunar- og eftirlitsnefnd Alþingis grein fyrir framvindu nefndarstarfsins eftir því sem eðlilegt er. 

Um endurskoðun stjórnarskrárinnar segir í stefnuyfirlýsingu ríkisstjórnarinnar að unnið verði áfram að henni með breiða samstöðu og fagmennsku að leiðarljósi.

Þess má geta að í dag eru þrjú ár liðin frá þjóðfundinum í Laugardalshöll þar sem þúsund manns, þverskurður þjóðarinnar, komu saman til að ræða um stjórnarskrána og endurbætur á henni en fundurinn var liður í því endurskoðunarferli sem hófst árið 2005.

Stjórnarskrárnefndina skipa:

  • Sigurður Líndal, prófessor emeritus, formaður, skipaður án tilnefningar 
  • Aðalheiður Ámundadóttir, lögfræðingur, tilnefnd af Pírötum 
  • Birgir Ármannsson, alþingismaður, tilnefndur af Sjálfstæðisflokki 
  • Freyja Haraldsdóttir, framkvæmdastýra og varaþingmaður, tilnefnd af Bjartri framtíð 
  • Jón Kristjánsson, fyrrverandi ráðherra, tilnefndur af Framsóknarflokki 
  • Katrín Jakobsdóttir, alþingismaður, tilnefnd af Vinstrihreyfingunni - grænu framboði 
  • Skúli Magnússon, héraðsdómari, tilnefndur af Framsóknarflokki 
  • Valgerður Bjarnadóttir, alþingismaður, tilnefnd af Samfylkingu 
  • Valgerður Gunnarsdóttir, alþingismaður, tilnefnd af Sjálfstæðisflokki 


Stefnt er að því að vinnu nefndarinnar ljúki tímanlega svo að hægt sé að samþykkja frumvarp til breytinga á stjórnarskránni á yfirstandandi kjörtímabili en unnt er að áfangaskipta vinnunni eftir því sem henta þykir.

Nefndin ákveður verklag sitt í samráði við forsætisráðuneytið, þ.m.t. varðandi sérfræðiaðstoð.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert