Skapandi greinar á meðal öflugustu atvinnugreina

Androulla Vassiliou, kýpverskur menningar- og menntunarstjóri Evrópusambandsins, kynnti meginhugmyndir og …
Androulla Vassiliou, kýpverskur menningar- og menntunarstjóri Evrópusambandsins, kynnti meginhugmyndir og áherslur að baki „Creative Europe“ fyrir menningarblaðamönnum frá öllum Evrópulöndunum. Einar Falur Ingólfsson

Á næstu árum á að aðstoða 250.000 evrópska listamenn við að koma verkum á framfæri, auðvelda dreifingu 800 kvikmynda, styðja við 2.000 kvikmyndahús og styrkja þýðingu 4.500 bóka. „Skapandi greinar eru nú meðal öflugustu atvinnugreina Evrópu,“ segir menningarstjóri ESB. 

Ákveðið hefur verið að auka fjárframlög til menningarmála í löndum Evrópusambandsins. Á sama tíma og fjárhagsáætlun þess einkennist í fyrsta skipti af samdrætti, hefur því verið ákveðið að láta aukið fé renna til menningarlífsins og hinna skapandi greina, enda sýna rannsóknir fram á að það eru þau svið efnahagslífsins sem skila hvað mestum vexti og fleiri gæðastörfum en önnur á þessum krepputímum.

Ný menningarstefna sambandsins, sem Íslendingar tengjast ásamt hinum EFTA-löndunum með gagnkvæmum samningum, kallast „Creative Europe“ og á næstu sjö árum verður framlag til málaflokksins hækkað um níu prósent. Verður 1,46 milljörðum evra varið til hans á tímabilinu frá 2014 til 2020.

Fyrirhugað er að „Creative Europe“ muni á næstu sjö árum styðja 250.000 listamenn og sérfræðinga í menningarmálum og hjálpa til við að koma verkum þeirra á framfæri utan heimalandanna; auðvelda dreifingu yfir 800 evrópskra kvikmynda út um Evrópu og til annarra heimsálfa; styðja við rekstur yfir 2.000 kvikmyndahúsa þar sem að minnsta kosti helmingur sýndra kvikmynda er evrópskur; yfir 4.500 bækur munu njóta góðs af þýðingastyrkjum; og þúsundir menningarstofnana og listamanna í ýmsum geirum verður gert kleift að koma sér og verkum á framfæri í öðrum löndum.

Um 4,5 prósent samanlagðrar þjóðarframleiðslu Evrópulanda kemur frá menningargeiranum og hinum skapandi greinum; yfir 8,5 milljónir starfa eru þar að baki.

Þrátt fyrir að tæplega einn og hálfur milljarða evra er nú eyrnamerktur mennningarmálum á næstu sjö árum með þessum hætti, er rétt að taka fram, að aðrir liðir sem einnig flokkast undir menningu fá umtalsvert meira fjármagn. Til að mynda falla um sex milljarðar evra undir „menningarlega arfleifð“, en þar má finna þjóðminjasöfn og hvers kyns fornleifar.

Íslendingar með

Ísland mun á grundvelli EES-samningsins taka þátt í nær öllum áætlunum Evrópusambandins, sem hefjast á næsta ári, þar með talið „Creative Europe“. Áætlað er að Evrópuþingið samþykki „Creative Europe“-áætlunina 19. nóvember næstkomandi og í kjölfarið þarf að fella ákvörðun um þátttöku EFTA/EES ríkjanna í áætluninni í EES samninginn. Það ferli tekur að jafnaði fimm til sex mánuði og því er hugsanlegt að samstarfi milli listamanna og menningarstofnana í annars vegar EES/EFTA-ríkjunum og hins vegar Evrópusambandinu geti ekki verið komið á við fyrstu úthlutun, sem áætlað er að verði sumarið 2014. Unnið er að því af hálfu EFTA og framkvæmdastjórnar ESB að flýta fyrir málum til að þátttaka aðila frá EFTA/EES ríkjunum verði tryggð frá byrjun.

Vöxturinn er í menningu

Í vikunni kynnti Androulla Vassiliou, kýpverskur menningar- og menntunarstjóri Evrópusambandsins, meginhugmyndir og áherslur að baki „Creative Europe“ fyrir menningarblaðamönnum frá öllum Evrópulöndunum. Hún sagði afar mikilvægt að styðja við menninguna í öllum löndum Evrópu og ekki síst á þessum erfiðleikatímum.

„Hinar skapandi greinar eru gríðarlega mikilvægar fyrir menningarlegan fjölbreytileika Evrópu. Sá fjölbreytileiki er mikilvægasta auðlind álfunnar og það er skylda okkar bæði að vernda hann og kynna,“ sagði Vassiliou. Hún bætti við að nú væri þó enn ríkari ástæða til að standa vel að baki hinum skapandi greinum, því þar væri einhver mesti vöxturinn í atvinnusköpun álfunnar í dag.

„Mörgum hættir til að líta fram hjá því að menningin og hinar skapandi greinar og framleiðsla þeim tengd er nú meðal öflugustu atvinnugreina Evrópu. Við skapandi greinar verður til sívaxandi fjöldi gæðastarfa fyrir fólk í öllum þessum löndum,“ sagði hún.

Skýra listina fyrir bönkum

„Nú höfum við í höndum kannanir sem leiða í ljós að þessi svið efnahagslífsins eru kraftmeiri og skapa meiri vöxt en til að mynda bílaiðnaðurinn, plastframleiðsla og efnaiðnaðurinn. Sumir neita að trúa þessu og á ráðstefnu, sem ég talaði nýlega á og sagði að hinar skapandi greinar ættu að fá enn meira vægi, þá voru mér send skilaboð með spurningunni hvort ég hefði ekki eitthvað nytsamlegra við tímann að gera en halda öðru eins fram.“ Hún brosir. „En tölurnar ljúga ekki. Þær sýna að hinar skapandi greinar eru í dag leiðandi í efnahagsvexti og fjölgun starfa. Það er engin ímyndun heldur niðurstaða vandaðra kannana.

En það má ekki bara halda menningunni fram sem mikilvægu efnahagsafli, því má ekki gleyma að hún er ómetanlegur þáttur í sjálfsmynd þjóðanna.“

Vassiliou segir að þótt máttur menningar sé mikill og sívaxandi í álfunni, þá séu engu að síður víða hindranir á veginum þegar kemur að því að miðla sköpuninni milli landa og til stærri áhorfendahópa.

Markmiðið er að nota „Creative Europe“-áætlunina til að fjarlægja þessar hindranir. Það felst meðal annars í því að hjálpa hinum skapandi greinum að „sigrast á“ hömlum sem hinir einstöku markaðir og tungumál skapa. Þá er stefnt að því að nýta sem best möguleika net- og hnattvæðingar og auðvelda aðgengi að nauðsynlegu fjármagni til framkvæmda í þessum geira.

„Í því skyni mun umsækjendum í fyrsta skipti gert kleift að fá bankaumsögn. Eitt af vandamálum listamanna og þeirra sem standa að allrahanda menningarframkvæmdum, er að bankar eru hikandi við að lána þeim fé því bankamenn skilja ekki hvert gildi þeirra er og hvernig meta má óefniskennd verðmæti verkanna og framkvæmdanna. Því bjóðum við bönkum nú sérfræðiþekkingu okkar við að skilja betur þau verðmæti sem hinar skapandi greinar búa til. Í kjölfarið eiga möguleikar á lánveitingum að aukast.“

Sótt í menningarviðburði

Vassiliou segir að hún hafi vonast eftir enn meira fé til málaflokksins, byggt á mikilvægi hans í samtímanum; hún fór fram á 37 prósent aukningu en fékk níu. Hún segist þó ánægð með það, eins og staða mála er.

Athyglisvert var að heyra á fundinum mál blaðamanna og sérfræðinga í menningargeiranum, víða að úr Evrópu, því sagan er sú sama og hér á landi: fjöldi gesta á leiksýningar hefur aukist, sama má segja um myndlistarsýningar, bókasöfn, listasöfn, og framleiðsla kvikmynda, oft og tíðum mjög metnaðarfullra og persónulegra, hefur færst í vöxt. Kannanirnar sem menningarstjórinn kynnti staðfesta það. Menningin er í sókn.

Þessi grein birtist
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Þessi grein birtist
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:

Bloggað um fréttina

Kauptu vikupassa

Lestu meira með vikupassa!

Fáðu þér vikupassa fyrir 2.090 kr. og þú færð aðgang að öllu efni úr blaði dagsins í dag og næstu 6 daga.

Kaupa vikupassa

Aðrar áskriftarleiðir »