Hannes er ákærður fyrir fjárdrátt

Hannes Smárason
Hannes Smárason mbl.is/Golli

Hannes Smárason er ákærður fyrir fjárdrátt með því að hafa 25. apríl 2005 sem stjórnarformaður FL Group, dregið sér af fjármunum FL Group, 2,875 milljarða króna sem hann ráðstafaði til Fons. Þetta kemur fram í ákæru sérstaks saksóknara sem gerð var opinber í dag.

Í ákærunni segir að þann 22. apríl 2005 lét Hannes millifæra 46.500.000 Bandaríkjadali af bankareikningi FL Group í útibúi Danske Bank í New York í Bandaríkjunum inn á bankareikning FL Group í Kaupþingi banka í Lúxemborg en þann reikning hafði Hannes látið stofna 17. apríl 2005.

Þann 25. apríl 2005 var 45.864.241 Bandaríkjadölum svo skipt yfir í 2,875 milljarða íslenskra króna. Og sama dag var sú upphæð millifærð yfir á bankareikning Fons í sama banka. Sama dag var fjárhæðinni skipt yfir í 260.889.292 danskar krónur og 375.000.000 danskar krónur svo millifærðar af sama reikningi Fons yfir á bankareikning þáverandi eiganda Sterling Airlines.

Þá segir að millifærsla Hannesar hafi verið framkvæmd án vitundar, og þar með samþykkis, þáverandi forstjóra, fjármálastjóra og annarra meðlima í stjórn FL Group.

Ti vara er Hannes ákærður fyrir umboðssvik með því að hafa misnotað aðstöðu sína og valdið FL Group verulegri fjártjónshættu með umræddri millifærslu.

Hannes og Jón Ásgeir gengust í persónulegar ábyrgðir

„Sakargögn benda til þess að ákærði [Hannes] hafi haldið umræddri millifærslu leyndri fyrir stjórnendum og stjórn FL Group, en aðrir en ákærði höfðu ekki aðgang að bankareikningi FL Group hjá KBL fyrr en 28. júní 2005,“ segir í ákærunni og að það hafi ekki verið fyrr en eftir þrýsting, meðal annars frá þáverandi forstjóra félagsins, að fjármunirnir skiluðu sér aftur á reikning FL Group 30. júní 2005, eða rúmum tveimur mánuðum eftir millifærsluna. Fyrir þann tíma hafði millifærslan ekki verið færð í bókhald félagsins.

Í ákæru segir að Kaupþing í Lúxemborg hafi veitt Fons lán til að greiða umrædda fjármuni til baka til FL Group og gengust Hannes og Jón Ásgeir Jóhannesson í persónulegar ábyrgðir fyrir endurgreiðslu lánsfjárhæðarinnar.

Þá segir að það skipti engu máli varðandi refsinæmi að fjármunirnir hafi skilað sér aftur til FL Group. „[Á]kærði neyddist til að láta Fons skila fjármununum til baka vegna mikils þrýstings af hálfu FL Group, meðal annars frá þáverandi forstjóra FL Group. Fons varð að taka lán til að geta endurgreitt Fl Group fjármunina og ákærði að ábyrgjast endurgreiðslu þess.“

Ennfremur segir að veruleg fjártjónshætta hafi skapast um leið og Hannes lét millifæra 2.875.000.000 íslenskra króna inn á bankareikning Fons og varað allan þann tíma sem fjármunirnir voru ekki í vörslum réttmæts eiganda þeirra, FL Group. Ráðstöfunin hafi ekki verið gerð á grundvelli skjalfests samnings og án skuldbindinga af hálfu Fons um endurgreiðslu. Þá hafi Hannes engar ráðstafanir gert til að tryggja endurgreiðslu fjármunanna.

Í ákærunni kemur fram að brotin eru talin varða við 1. mgr. 247. grein almennra hegningarlaga, sem fjallar um fjárdrátt, og til vara við 249. grein sömu laga sem varða umboðssvik.

Frétt mbl.is: Þriggja milljarða millifærslan

Frétt mbl.is: Staðfestir millifærslu frá FL

Frétt mbl.is: Hannes segist ekki hafa brotið lög

Frétt mbl.is: Tugmilljóna einkaútgjöld á viðskiptamannareikning

Frétt mbl.is: Hannes vísar ásökunum á bug

Frétt Morgunblaðsins: Stjórnendur Icelandair lögðust gegn kaupum á Sterling Airlines

Frétt Morgunblaðsins: Hlutafé aukið um 44 milljarða og fækkað í stjórn

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert