Skýrslurnar í raun greinargerðir

Karl Wernersson er á meðal ákærðu í málinu.
Karl Wernersson er á meðal ákærðu í málinu. mbl.is/Styrmir Kári

Hæstiréttur hefur staðfest úrskurð Héraðsdóms Reykjavíkur þess efnis að sérstökum saksóknara sé óheimilt að leggja fram sex skýrslur rannsakenda í máli gegn stjórnendum Milestone og þremur endurskoðendum frá KPMG. Var fallist á það með verjendum að skýrslurnar væru í raun greinargerðir.

Þá staðfesti Hæstiréttur að saksóknara væri heimilt að leggja fram tímalínu í málinu og fylgigögn með henni, enda væri um að ræða sönnunargögn með yfirliti í tímaröð yfir tiltekna atburði og tilvísanir í rannsóknargögn og samkvæmt lögum um meðferð sakamála væri saksóknara heimilt að leggja þau gögn fram.

Í málinu eru Guðmundur Ólason, forstjóri Milestone, Karl Wernersson, stjórnarformaður, og Steingrímur Wernerson, stjórnarmaður, ákærðir fyrir umboðssvik, meiriháttar brot á bókhaldslögum og lögum um ársreikninga í tengslum við greiðslur til Ingunnar Wernersdóttur en þær námu á sjötta milljarð króna. Þá eru endurskoðendurnir Hrafnhildur Fanngeirsdóttir, Margrét Guðjónsdóttir og Sigurþór Charles Guðmundsson, öll frá endurskoðunarfyrirtækinu KPMG, ákærð fyrir brot gegn lögum um endurskoðendur. Þau Margrét og Sigurþór eru ennfremur ákærð fyrir meiriháttar brot á lögum um ársreikninga.

Í ákærunni kemur fram að háttsemi Werner-bræðra og Guðmundar hafi falist í því að þeir létu Milestone fjármagna kaup bræðranna á hlutafé systur þeirra, Ingunnar, í félaginu.

Frétt mbl.is: „Þá fá allir eitthvað fyrir sinn snúð“

Frétt mbl.is: Allir sakborningar neituðu sök

Frétt mbl.is: „Kasta rýrð“ á Milestone-menn

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert