Búið að opna veginn undir Hafnarfjalli

Mikil umferð er frá Borgarnesi.
Mikil umferð er frá Borgarnesi. mbl.is/Benedikt Bóas

Opnað hefur verið fyrir umferð um veginn undir Hafnarfjalli á ný en lögreglan í Borgarnesi ákvað að loka honum um miðjan dag þar sem vindhviður fóru upp í 52 metra á sekúndu. Fjöldi fólks var veðurtepptur í Borgarnesi og því er mikil umferð um veginn þessa stundina.

Vegagerðin segir að skil óveðurslægðarinnar fari hratt norðaustur yfir landið. Þegar hefur lægt á Vesturlandi og suðvesturhorni landsins. 

Austan og Norðaustanlands gengur veðrið hins vegar ekki niður fyrr en í nótt. Snýst í SV-storm suðvestan- og vestanlands í nótt og fyrramálið og þá með krapaéljum og hálku ofan um 200-300 metra hæðar.

Hálkublettir eru á Hellisheiði, Þrengslum, Mosfellsheiði og við Þingvallavatn. Hálkublettir eru í uppsveitum Árnessýslu. Vegir fyrir austan Selfoss eru að mestu greiðfærir en óveður er undir Eyjafjöllum

Hálka  eða hálkublettir eru nú víða á vegum á Vesturlandi. Óveður er á norðanverðu Snæfellsnesi. Á Fróðárheiði er þæfingur og óveður. Hálka á Bröttubrekku.

Það er hálka eða snjóþekja allvíða á Vestfjörðum, éljagangur og snjókoma. Óveður og hálka er á Kleifaheiði, þæfingur og skafrenningur á Mikladal og á Hálfdáni.  Þungfært  og stórhríð er á Hrafnseyrarheiði og Dynjandisheiði.

Á Norðurlandi vestra er óveður frá Staðarskála og yfir Vatnsskarð. Hálkublettir mjög víða en hálka á Þverárfjalli, í Langadal og á Siglufjarðarvegi frá Ketilási í Siglufjörð.

Norðaustanlands er hálka á flestum vegum og skafrenningur en þæfingsfærð á Dettifossvegi.

Á  Austurlandi er víðast hvar hálka eða snjóþekja en hálkublettir eru með ströndinni í Breiðdalsvík. Eftir það að mestu autt að Hvalnesi. Snjóþekja eða hálkublettir eru á kafla fyrir vestan Höfn og snjóþekja fyrir vestan Kirkjubæjarklaustur en annars eru vegir greiðfærir við suðausturströndina.


mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert