Björgunarsveitir að störfum í nótt

Fernanda í Hvalfirði.
Fernanda í Hvalfirði. Magnús Þór Hafsteinsson/Skessuho

Björgunarsveitir voru kallaðar út á nokkrum stöðum í gærkvöldi og í nótt vegna óveðursins sem gekk yfir landið. Meðal annars þurfti björgunarsveitin á Akranesi að aðstoða við að festa flutningaskipið Fernöndu við bryggju á Grundartanga.

Fyrsta ferð Herjólfs fellur niður vegna hárrar öldu við Suðurströndina. Von er á næstu tilkynningu varðandi siglingar Herjólfs í dag klukkan 13.

Allt innanlandsflug féll niður eftir hádegi í gær en útlit er fyrir að það verði með eðlilegum hætti í dag.

Samkvæmt upplýsingum frá Slysavarnafélaginu Landsbjörgu voru björgunarsveitir sem sinntu  óveðursaðstoð allar komnar í hús um kvöldmatarleytið í gær.

Björgunarsveitin Tindur á Ólafsfirði var  kölluð út í gærkvöldi þegar þak losnaði á verkstæði og á Húsavík tryggði björgunarsveitin bát sem var að fjúka á hliðina en sá var á vagni á hafnargarðinum.

Á fjórða tímanum í nótt var svo björgunarsveit kölluð út að nýju í Reykjavík þar sem tilkynnt var um að þak væri að losna af húsi á Aflagranda. Um klukkustund síðar var Björgunarsveitin Suðurnes ræst þegar þakið fór að fjúka af gömlu sundlauginni í Keflavík.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert