Verða að líta á það sem lokið er

Tinna Gunnlaugsdóttir, þjóðleikhússtjóri
Tinna Gunnlaugsdóttir, þjóðleikhússtjóri Kristinn Ingvarsson

Tinna Gunnlaugsdóttir, þjóðleikhússtjóri, segist í fljótu bragði ekki sjá mikla hagræðingarmöguleika í því að sameina yfirstjórnir Þjóðleikhússins, Íslenska dansflokksins, Íslensku óperunnar og Sinfóníuhljómsveitar Íslands, en sameiningin er ein tillaga starfshóps ríkisstjórnarinnar um hagræðingu í ríkisfjármálum. 

„Ég sé ekki beina hagræðingarmöguleika í þessu. En ég sé hins vegar að Þjóðleikhúsið er fínt hús fyrir óperu þó það hafi vissulega ekki sama sætafjölda og Harpa. Og svo er þjóðleikhúsið er líka gott fyrir dans þó það sé ekki jafnstórt og sviðið í Borgarleikhúsinu. En ef að á að sameina þessar stofnanir að einhverju marki eru svo margar breytur sem verður að taka með í reikninginn að ég get ekkert fullyrt a þessu stigi annað en að það sé sjálfsagt að skoða þetta,“ segir Tinna.

Hún bætir við að þegar skoða á möguleika á sameiningu yfirstjórnanna sé hægt að líta til Danmerkur. Þar sé leikhús, ópera og ballett allt saman undir yfirstjórn Konunglega leikhússins. Í Evrópu sé síðan líka algengt að ballett og ópera séu séu í samstarfi.  

„Það er samt svo að Þjóðleikhúsið hefur tekið á sig mikla skerðingu eftir hrun. Það er allt í lagi að einhverjir í hagræðingarhópnum fái hugmyndir um það hvernig megi hagræða, en það verður líka að líta á það sem þegar er búið að gera í hagræðingarskyni,“ segir Tinna.

<span><br/></span>
mbl.is

Bloggað um fréttina