Þungir dómar féllu í Tékklandi

Frá Prag, höfuðborg Tékklands.
Frá Prag, höfuðborg Tékklands. mbl.is/Ómar

Dómur í máli tveggja íslenskra stúlkna sem voru ákærðar fyrir að smygla rúmum þremur kílóum af hreinu kókaíni til Tékklands féll í Prag í dag. Önnur þeirra var dæmd í sjö og hálfs árs fangelsi en hin fékk sjö ára dóm. Niðurstöðunni hefur þegar verið áfrýjað.

Þórir Gunnarsson, ræðismaður Íslands í Tékklandi, var viðstaddur réttarhöldin. Hann segir í samtali við mbl.is, að stúlkurnar hafi verið teknar með tvær töskur. Sú sem var tekin með aðeins minna magn fékk sjö ára dóm en hin fékk sjö og hálft ár.

„Það er búið að áfrýja,“ segir hann og bætir við að ákæruvaldið hafi einvörðungu farið fram á fjögurra ára fangelsi.

Þórir segir að dómarinn hafi dæmt málið útfrá röngum forsendum. „Það voru allir sjokkeraðir [...] „Ég bara dey,“ sögðu þær,“ segir Þórir þegar hann er spurður út í viðbrögð viðstaddra. 

Hann bætir því við að stúlkurnar þurfi að afplána tvo þriðju hluta dómsins. 

Hafa verið í gæsluvarðhaldi í eitt ár

Stúlkurnar, sem eru 19 ára gamlar, voru handteknar á Vaclav Havel-flugvellinum í Prag, höfuðborg Tékklands, þann 7. nóvember 2012 eftir að kókaín fannst í þeirra fórum. Þær komu til landsins frá Sao Paulo í Brasilíu, en millilentu í München í Þýskalandi.

Kókaínið, sem var um 89% sterkt, var vandlega falið inni í fóðri tösku og kom fram í fyrstu fréttum að handtakan væri afrakstur samvinnu tékkneskra og þýskra yfirvalda. Málið hefur einnig verið unnið með íslenskum og dönskum lögregluyfirvöldum.

Stúlkurnar hafa setið í gæsluvarðhaldi í Tékklandi frá því málið komst upp, en gæsluvarðhaldið dregst frá refsningu stúlknanna.

Vitnaleiðslur fóru fram í málinu í Prag í gær og í dag var loks kveðinn upp dómur í málinu. 

Gerðust burðardýr í Suður-Ameríku

Stúlkurnar komust í samskipti við skipuleggjendur smyglsins í gegnum samskiptavef í júlí 2012 og samþykktu þær þá að gerast burðardýr, að því er fram kemur á tékkneska fréttavefnum 5plus2. Önnur þeirra sagði að hún hefði verið í miklu rugli á þessum tíma. Upphaflega stóð til að stúlkurnar gleyptu fíkniefnin og smygluðu þeim á milli landa innvortis. Í september 2012 yfirgáfu stúlkurnar Ísland, en þæri flugu til Bretlands og síðar til Spánar. Þaðan flugu þær til Lima, sem er höfuðborg Perú í Suður-Ameríku.

Fram kemur í umfjöllun tékkneska fréttavefjarins 5plus2, að skipuleggjendur smyglsins hafi verið frá Íslandi, Danmörku og Bandaríkjunum. Í Perú var ákveðið að efnin skyldu vera flutt vandalega falin í ferðatösku. Stúlkurnar urðu að fara til borgarinnar Guaira í Braslilíu, sem liggur við landamæri Paragvæ, þar sem þær fengu afhent þrjú kíló af kókaíni sem flytja átti til Evrópu.

Fram kom við réttarhöldin að stúlkurnar hefðu verið mjög óttaslegnar. Þegar þær voru staddar í Þýskalandi hafi a.m.k. önnur þeirra íhugað að flýja.

Það fór svo að tollayfirvöld á Vaclav Havel-flugvellinum í Prag höfðu hendur í hári íslensku stúlknanna. Fram kemur að tékknesk lögregluyfirvöld hafi unnið málið í samstarfi við lögregluna á Íslandi og í Danmörku. Handtók danska lögreglan íslenskan mann í tengslum við málið, en í frétt 5plus2 er hann nefndur á nafn sem Óli. Hjá honum fannst bæði kókaín og e-töflur.

Kókaínið sem stúlkurnar fluttu til landsins var vel falið í …
Kókaínið sem stúlkurnar fluttu til landsins var vel falið í tveimur töskum. Ljósmynd/celnisprava.cz
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert