Vill breyta friðlýsingu Þjórsárvera

Hörður Arnarson, forstjóri Landsvirkjunar.
Hörður Arnarson, forstjóri Landsvirkjunar. mbl.is/Ómar Óskarsson

„Þetta er bara hluti af ferlinu þegar ekki er sátt um friðlýsingar. Þá kallar ráðherra einfaldlega eftir sjónarmiðum mismunandi aðila og tekur síðan ákvörðun. Þetta er bara hluti af stjórnsýslunni. Ráðherrann tekur vonandi að einhverju leyti tillit til okkar sjónarmiða. Síðan fær hann sjónarmið annarra og tekur í framhaldinu ákvörðun.“

Þetta segir Hörður Arnarson, forstjóri Landsvirkjunar, í samtali við mbl.is en fyrirtækið hefur sent Sigurði Inga Jóhannssyni, umhverfisráðherra, bréf þar sem settar eru fram þrjár útfærslur á mögulegum friðlýsingarskilmálum vegna Þjórsárvera en ráðherrann frestaði undirritun þeirra í sumar á þeim forsendum að málsmeðferðin við afgreiðslu þeirra hefði ekki verið lögum samkvæmt. Forveri hans, Svandís Svavarsdóttir, hafði áður gert ráð fyrir að friðlandið yrði stækkað mjög sem hefði komið í veg fyrir Norðlingaölduveitu.

Markmiðið lágmarksbreytingar á friðlandsmörkum

Tillögur Landsvirkjunar á útfærslum á mögulegum friðlýsingarskilmálum gera í fyrsta lagi ráð fyrir óbreyttum friðlandsmörkum, í annan stað að friðlandsmörkin verði afmörkuð af 566 metra hæð yfir sjávarmáli með 20 metra fjarlægðarmörkum vegna umráðasvæðisog engir fyrirvarar verði í skilmálunum vegna Norðligaölduveitu og í þriðja lagi að friðlandsmörkin liggi yfir farveg Þjórsár um 2800 metrum ofan ármóta Svartár og Þjórsár og fyrirvarar verði í friðlýsingarskilmálunum um Norðlingaölduveitu.

Fram kemur í lok bréfinu að markmiðið með þessum breytingatillögum Landsvirkjunar séu að gera lágmarksbreytingar á friðlandsmörkum eða friðlýsingarskilmálum þannig að tryggt sé að Eyvafen, ósnert víðerni vestan Þjórsár, sé innan stækkaðs friðlands og að sú útfærsla á Norðlingaölduveitu, sem geri ráð fyrir 566-567,5 metrum yfir sjávarmáli og myndi skerða umrætt víðerni, sé útilokuð.

Náttúruverndarsamtök Íslands sendu frá sér yfirlýsingu í morgun þar sem þau „mótmæla harðlega öllum áformum Landsvirkjunar og umhverfisráðherra um Norðlingaölduveitu. Með þessum áformum er gengið þvert gegn lögum rammaáætlun sem kveða skýrt á um að virkjunarkosti í verndarflokki beri að friðlýsa.“ Hliðstæð ályktun hefur einnig verið send út af Landvernd. Ennfremur er þar hvatt til friðlýsingar alls svæðisins hið allar fyrsta.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert