Kirkjuþing fái aukin völd

Lagt er til að biskupi verði markaður 12 ára hámarkstími …
Lagt er til að biskupi verði markaður 12 ára hámarkstími í starfi Ljósmynd/Biskupsstofa

Kirkjuþing 2013 var sett klukkan níu í morgun í Grensáskirkju þegar Agnes M. Sigurðardóttir, biskup Íslands, leiddi bænastund og Magnús E. Kristjánsson, forseti kirkjuþings, og Hanna Birna Kristjánsdóttir, innanríkisráðherra, fluttu ávörp.

Á meðal mála sem lögð verða fyrir þingið er tillaga til frumvarps um ný þjóðkirkjulög. Frumvarpið var unnið af nefnd sem kirkjuþing skipaði til að koma með tillögur að nýjum þjóðkirkjulögum. Í frumvarpinu er gert ráð fyrir nokkrum breytingum á stöðu biskups, kirkuþings og kirkjuráðs.

Biskupi markað 12 ára hámarks kjörtímabil

Í frumvarpinu er lagt til það nýmæli að kjörtímabil biskups Íslands verði til sex ára og hann megi ekki sitja lengur en tvö kjörtímabil, eða samtals í tólf ár. Í greinargerð með frumvarpinu segir að eðlilegt þyki í ljósi breyttra samfélagshátta og séreðlis þess mótunarstarfs að því sé markaður ákveðinn hámarkstími. Þá segir að ætla megi að biskupi hafi tekist að koma fram þeim umbótum og þjónustu sem hann vildi veita kirkjunni á þessum tólf árum.

Ábyrgð kirkjuþings aukin

Mikið er fjallað um hlutverk kirkjuþings og er með frumvarpinu stefnt að því að færa ábyrgð og ákvarðanatöku í ríkara mæli til kirkjuþingsins og segir að með því sé gengið út frá stöðu þjóðkirkjunnar sem sjálfstæðs trúfélags, í stað þess að litið sé á hana sem opinbera stofnun.

Fá víðtæka heimild til að setja starfsreglur

Í núgildandi þjóðkirkjulögum er kirkjuþingi heimilað að setja reglur um tiltekna þætti kirkjustarfsins sem ekki er fjallað um í almennum reglum þjóðkirkjunnar. Í nýju lögunum er lagt til að kirkjuþing fái nokkuð víðtæka almenna heimild til að setja starfsreglur um málefni þjóðkirkjunnar og sé sú heimild í samræmi við þann megintilgang frumvarpsins að einfalda löggjöf um málefni kirkjunnar og færa ábyrgð og ákvarðanatöku í þeim efnum í enn ríkara mæli til kirkjuþings.

Fjárstjórnarvald fært til kirkjuþings

Lagt er til að kirkjuþing fari með æðsta vald í fjármálum þjóðkirkjunnar og geti þannig ákveðið skiptingu þess fjár sem til ráðstöfunar er á hverjum tíma, þetta er breyting frá núverandi fyrirkomulagi þar sem kirkjuráð hefur hingað til haft yfirumsjón með ráðstöfun fjár. Er þetta gert til þess að skerpa skilin á milli kirkjuþings og kirkjuráðs, sem fer með framkvæmdavald þjóðkirkjunnar. Ákvarðanir um ráðstöfun fjár til einstakra verkefna verða þó enn á hendi ráðsins.

Vilja leggja niður úrskurðarnefndir

Lagt er til að úrskurðar- og áfrýjunarnefndir verði lagðar niður þar sem almennir dómstólar eru taldir betur til þess fallnir að skera úr ágreiningi sem ekki verður leystur innan kirkjunnar. Þá á kirkjuþing að setja starfsreglur um starfssvið biskups og um agamál og lausn ágreiningsmála á vettvangi kirkjunnar.

Dregið úr völdum biskups

Samhliða því að völd kirkjuþings eru aukin er dregið úr völdum biskups í frumvarpinu, en auk þess sem honum er markaður ákveðinn hámarks starfstími er í frumvarpinu ekki gert ráð fyrir því að biskup verði sjálfkrafa formaður kirkjuráðs í krafti embættis síns.

Agnes M. Sigurðardóttir, biskup Íslands
Agnes M. Sigurðardóttir, biskup Íslands Ómar Óskarsson
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert