Íslenskur fulltrúi til Filippseyja

Orri Gunnarsson, sendifulltrúi Rauða Kross Íslands og verkfræðingur.
Orri Gunnarsson, sendifulltrúi Rauða Kross Íslands og verkfræðingur. Ljósmynd/Rauði kross Íslands

Þrettán alþjóðlegar neyðarsveitir Rauða krossins hafa verið kallaðar til hjálparstarfa í kjölfar fellibylsins á Filippseyjum.  Íslenskur sendifulltrúi verður í hópi fyrstu alþjóðlegu hjálparstarfsmanna á vettvangi, Orri Gunnarsson verkfræðingur. Þetta kemur fram í tilkynningu frá Rauða kross Íslands.

Þetta er fyrsta neyðarverkefni Orra fyrir Rauða krossinn á Íslandi. Orri verður í hópi neyðarsveitar sem mun setja upp færanlega heilbrigðisþjónustu á eyjunni Samar.  
 
Sjálfboðaliðar Rauða krossins á Filippseyjum hafa unnið sleitulaust að björgun og aðhlynningu slasaðra frá því fellibylurinn reið yfir landið síðasta föstudag. Rauði krossinn hefur einnig unnið að dreifingu hjálpargagna og við að koma fólki í skjól frá fyrsta degi.  

Rauði krossinn hvetur fólk til að hringja í söfnunarsíma Rauða krossins 904 1500, 904 2500 og 904 5500 og leggja hjálparstarfinu lið. Þá bætist upphæð sem nemur síðustu 4 tölunum við næsta símreikning. Einnig er hægt að borga með kreditkorti á netinu á raudikrossinn.is eða leggja inn á reikning 0342-26-12, kt. 530269-2649.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert