Fjáröflun gekk vonum framar

Fjölmargir lögðu góðu málefni lið á Bambus í dag.
Fjölmargir lögðu góðu málefni lið á Bambus í dag. mbl.is/Árni Sæberg

Filippseyingar búsettir á Íslandi buðu upp á hlaðborð af filippseyskum mat til styrktar hjálparstarfinu á Filippseyjum á veitingastaðnum Bambus í Borgartúni í dag. Alur ágóðinn rann í neyðarsöfnun UNICEF. Skipuleggjendur hlaðborðsins segja að 664.370 krónur hafi safnast.

Mun fleiri mættu en menn áttu von á og tókst dagurinn frábærlega að sögn Sigríðar Víðis Jónsdóttur, upplýsingafulltrúa UNICEF á Íslandi. „Allir diskar og öll hnífapör kláruðust vegna mannfjöldans og skipuleggjendurnir þurftu að hlaupa eldsnöggt út og redda fleiri diskum. Í eldhúsinu voru menn á fullu og þurftu að bregðast hratt við og elda meiri mat,“ sagði hún. Hátt í fimmtíu sjálfboðaliðar hjálpuðu til og börn tróðu upp og sungu lög frá Filippseyjum auk þess sem danshópurinn Swaggerific kom fram og vakti mikla lukku.

Samkvæmt upplýsingum frá Sameinuðu þjóðunum hafa á bilinu 1,9 milljónir til 3 milljónir manna  misst heimili sitt í hamförunum og 3.700 dauðföll hafa verið staðfest. 1.200 manns er enn saknað og ljóst er að fjöldi manna er án húsaskjóls, matar og vatns og er neyðin því brýn.

Frétt mbl.is: Filippseyingar bjóða til hlaðborðs

Danshópurinn Swaggerific sýndi atriði
Danshópurinn Swaggerific sýndi atriði mbl.is/Árni Sæberg
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert