Aspartré felld við Dómkirkjuna

Aspartré voru felld við Dómkirkjuna í dag.
Aspartré voru felld við Dómkirkjuna í dag. Ljósmynd/Hreiðar Júlíusson

Um 20 aspartré voru felld við Dómkirkjuna og Alþingishúsið í miðborg Reykjavíkur í dag. Önnur tré verða gróðursett í staðinn. Þetta er gert í samræmi við úttekt garðyrkjustjóra Reykjavíkurborgar sem sýndi að fjölmörg tré sem gróðursett voru á 9. áratugnum eru illa farin og skemma gangstéttir.

„Við höfum verið að læra af reynslunni og erum í raun enn að þreifa okkur áfram með það hvaða tegundir er hægt að nota aðrar en ösp,“ segir Þórólfur Jónsson, garðyrkjustjóri Reykjavíkurborgar. 

Fyrir nokkrum misserum voru aspir við Ráðhúsið fjarlægðar og fyrir liggur að það sama mun þurfa að gera við Laugaveg, þegar fram líða stundir. Tré af öðrum tegundum eru gróðursett í staðinn.

Trén glíma við ýmsa óáran

„Við þekktum ekki götutré þegar byrjað var á þessari gróðursetningu upp úr 1980. Þá var unnið eftir þeirri þekkingu sem menn höfðu þá og við höfðum ekki neina aðra tegund en ösp til að velja úr. Góð götutré þurfa að vera nægilega bein og há, þannig að krónan sitji hátt.“

Trén sem felld voru í dag voru orðin nokkuð há eins og sést á myndunum og var krónan á sumum þeirra komin utan í nærliggjandi hús. Þórólfur segir að stærðarhlutföllin séu svipuð milli krónu og rótarkerfis og voru rætur trjánna byrjaðar að lyfta gangstéttarhellum á svæðinu. Þá voru nokkur dæmi um að ekið væri á trén auk þess sem gamlar jólaseríur höfðu sumstaðar skorist inn í stofn og greinar.

„Það er alls konar óáran sem trén þurftu að kljást við og þegar þetta allt var samantekið var í raun bara tímaspursmál hvenær brugðist yrði við.“

Þegar trjánum var plantað var þeim áætlað ákveðið rótarrými og komið fyrir moldarfylltu röri neðanjarðar. Þórólfur segir að rótarrýmið sem trjánum í Kvosinni var ætlað hafi reynst allt of lítið.

„Í rauninni verður þetta eins og pottaplanta. En öspin er svo dugleg að hún finnur sér leiðir upp úr pottinum og inn í rýmið milli sands og hellna. Þetta er nokkuð sem er erfitt að eiga við.“

Ekki búið að afskrifa öspina

Aspartrén í Kvosinni eru ekki þau einu sem þurfa að víkja því fyrir liggur að það sama mun gerast við Laugaveg fyrr eða síðar. Stærstu aspartrén þar eru yfir 10 metra há.

„Laugavegurinn er stóra málið, trén þar eru mörg illa farin og það er orðið mikið vandamál með hellur. Það hafa orðið slys þar sem gangandi vegfarendur detta um hellur sem eru komnar af stað,“ segir Þórólfur. 

Trén við Laugaveg verða hins vegar skoðuð í samhengi við framkvæmdir á Laugavegi í heild og bíður það því enn um sinn.

Þegar aspartrén við Vonarstræti og Tjarnargötu voru fjarlægð árið 2011 voru ýmsar tegundir settar niður í staðinn, þar á meðal gráreynir, garðahlynur og skrautreynir. „Okkur finnst þetta hafa tekist ágætlega í kringum Ráðhúsið svo við erum að nota sömu aðferð núna,“ segir Þórólfur. Líklega verði því nokkrar gerðir reynitrjáa settar niður við Dómkirkjuna.

Þórólfur tekur fram að Reykjavíkurborg sé þó alls ekki búin að afskrifa öspina, en það þurfi að velja henni stað við hæfi. „Við erum að gróðursetja ösp í Borgartúninu núna því við teljum að hún sé það eina sem þrífst þar.“

Þórólfur bendir á að í Borgartúninu séu stór og mikil hús, víðara til veggja og því meira pláss fyrir krónuna á stórum trjám eins og ösp.

Þórólfur Jónsson er garðyrkjustjóri hjá Reykjavíkurborg.
Þórólfur Jónsson er garðyrkjustjóri hjá Reykjavíkurborg. mbl.is/Sigurgeir Sigurðsson
Aspartré voru felld við Dómkirkjuna í dag
Aspartré voru felld við Dómkirkjuna í dag mbl.is/Hreiðar Júlíusson
mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert