Mál Geirs tekið fyrir hjá Mannréttindadómstól Evrópu

Geir H. Haarde, fyrrverandi forsætis- og fjármálaráðherra.
Geir H. Haarde, fyrrverandi forsætis- og fjármálaráðherra. Golli / Kjartan Þorbjörnsson

Mannréttindadómstóll Evrópu hefur ákveðið að taka fyrir mál Geirs H. Haarde, fyrrverandi forsætisráðherra, gegn Íslandi vegna Landsdómsmálsins. Dómstóllinn hefur þegar sent íslenskum stjórnvöldum bréf þar sem þetta kemur fram og spurningar um málsmeðferðina sem ber að svara fyrir mars næstkomandi. Málið var til umræðu á fundi ríkisstjórnarinnar í morgun.

„Það að Mannréttindadómstóllinn skuli taka málið til þessarar meðferðar hlýtur að fela í sér ákveðna viðurkenningu á því að til málsins gegn fyrrverandi forsætisráðherra hafi ekki verið stofnað með réttmætum eða sanngjörnum hætti,“ segir Hanna Birna Kristjánsdóttir innanríkisráðherra en ráðuneytið hefur fyrirsvar í málinu.

„Persónulega tel ég að slík réttarhöld eigi aldrei rétt á sér en mikilvægasta verkefnið núna er að setja í gang vinnu við að svara þessu bréfi dómstólsins með faglegum og fullnægjandi hætti.“

Spurð að því hvort ekki sé hætta á að stjórnarandstæðingar efist um að hlutleysis verði gætt í svörum stjórnvalda þar sem samflokksmenn Geirs halda utan um stjórnartaumana segir Hanna Birna: „Þetta mál er ekki tilkomið vegna núverandi ríkisstjórnar heldur var ákvörðunin tekin af Alþingi á síðasta kjörtímabili. Sú málsmeðferð var að mínu mati hvorki sanngjörn né réttmæt og þess vegna er enn mikilvægara að á þessi stigi málsins verði tryggt að stjórnvöld svari framkomnum spurningum dómstólsins með faglegum hætti og að svörin verði hafin yfir allan slíkan vafa. Ráðuneytið mun nú fara í að undirbúa viðbrögðin og verður ráðgjafar leitað um næstu skref.“

Sex spurningar og ensk þýðing á dómnum 

Á vef innanríkisráðuneytisins segir að í erindinu séu sex spurningar lagðar fyrir stjórnvöld vegna kærunnar. Stjórnvöldum er gert að útvega dómstólnum enska þýðingu af niðurstöðum Landsdóms, sem og öðrum ákvörðunum eða niðurstöðum tengdum málinu. Veittur er frestur til 6. mars 2014 til þess að koma á framfæri skriflegri greinargerð í málinu.

Erindi dómstólsins hefur verið sent Alþingi til upplýsingar.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert