Skuldalausnar stjórnvalda beðið

Sigmundur Davíð Gunnlaugsson og Bjarni Benediktsson, oddvitar ríkisstjórnarinnar.
Sigmundur Davíð Gunnlaugsson og Bjarni Benediktsson, oddvitar ríkisstjórnarinnar. mbl.is/Árni Sæberg

Stefnt er áfram að því að kynna niðurstöður og útfærslur í þessum mánuði á fyrirhuguðum aðgerðum stjórnvalda vegna skuldavanda heimilanna í landinu að sögn Sigurðar Más Jónssonar, upplýsingafulltrúa ríkisstjórnarinnar. Ekki liggur hins vegar nánar fyrir hvenær það verður gert. Stjórnvöld hafa lýst því yfir að niðurstöður vinnu sérfræðingahópa vegna aðgerða í þágu skuldugra heimila eigi að liggja fyrir í nóvember. Ljóst er að mikið er undir í þeim efnum en auk skuldamála heimilanna snýst málið meðal annars um stöðu lánveitenda, framtíðarfyrirkomulag verðtryggingar hér á landi, lánshæfi og skuldir ríkissjóðs og áform um afnám gjaldeyrishafta.

Sigmundur Davíð Gunnlaugsson, forsætisráðherra, upplýsti á haustfundi Framsóknarflokksins á Selfossi síðastliðinn laugardag að farin yrði blönduð leið við lækkun á skuldum heimilanna sem meðal annars fæli í sér breytingar á skattkerfinu. „Við blöndum leiðum í samræmi við stjórnarsáttmálann og þingsályktunartillög og úr því kemur besta niðurstaðan,“ sagði ráðherrann. Hins vegar væri ljóst að skuldavandi allra yrði ekki leystur en aðgerð stjórnvalda myndi einkum snúast um réttlæti og jafnræði. Sigmundur hefur sagt að í undirbúningi væru „róttækustu aðgerðir stjórnvalda nokkurs staðar í veröldinni í þágu skuldsettra heimila.“

Snýst um „stökkbreytt verðtryggð húsnæðislán“

Mikil umræða hefur farið fram um stefnu stjórnvalda um aðgerðir vegna skuldavanda heimilanna sem á einkum uppruna sinn í kosningaáherslum Framsóknarflokksins í aðdraganda þingkosninganna síðastliðið vor. Voru framsóknarmenn sakaðir um glannaleg kosningaloforð en þau gengu í meginatriðum út á „að svigrúm sem skapast við uppgjör þrotabúa bankanna verði nýtt til að leiðrétta stökkbreytt verðtryggð húsnæðislán,“ eins og sagði í stefnuskrá Framsóknarflokksins fyrir kosningarnar. Hafa framsóknarmenn gjarnan talað um forsendubrest í því sambandi sem leiðrétta þurfi.

Framsóknarmenn sögðust einnig vilja að skattaafsláttur yrði veittur vegna afborgana húsnæðislána og að upphæð afsláttarins yrði greidd beint inn á höfuðstól lánsins. Voru þeir gagnrýndir fyrir það í kosningabaráttunni að hugmyndir þeirra væru óljósar og ekki lægi fyrir hvernig þær yrðu útfærðar. Framsóknarflokkurinn lagði megináherslu á stefnu sína í málefnum skuldugra heimila í stjórnarmyndunarviðræðunum eftir þingkosningarnar og var hún lögð til grundvallar í viðræðunum. Hluti hugmyndanna var einnig afnám verðtryggingar á sem flestum lánum heimilanna til þess að koma í veg fyrir að þau hækkuðu aftur vegna hennar.

Sjálfstæðisflokkurinn lagði hins vegar megináherslu á það fyrir kosningar að skattkerfið yrði notað til þess að koma til móts við skuldug heimil. Þannig yrði veittur skattaafsláttur vegna afborgana af lánum til eigin íbúðarkaupa og ennfremur yrði fasteignaeigendum, sem kysu frekar að greiða inn á höfuðstól íbúðalána sinna en leggja fyrir séreignasparnað, veittur réttur til sama skattaafsláttar og fylgdi slíkum sparnaði. Þannig var ákveðið samræmi á milli stefnu Sjálfstæðisflokksins og Framsóknarflokksins hvað varðar beitingu skattkerfisins í þessum efnum. Munurinn fólst í afstöðunni til þess með hvaða hætti ætti að nýta mögulega fjármuni vegna uppgjörs gömlu bankanna, en sjálfstæðismenn hafa viljað að þeir yrðu nýttir til þess að greiða niður skuldir ríkisins.

Leiðréttingasjóður verður líklega skoðaður

Hins vegar er alls óvíst hvenær uppgjör gömlu bankanna munu fara fram og ekki síður hvaða fjármunum þau kunni að skila. Svartsýnustu spár gera ráð fyrir að það taki hugsanlega einhver ár að fá niðurstöðu í þau mál. Þeim möguleika er haldið opnum í stjórnarsáttmálanum að stofna sérstakan leiðréttingarsjóð til að ná markmiðum ríkisstjórnarinnar dragist uppgjör bankanna á langinn og er líklegt að sá möguleiki verði skoðaður. Rætt hefur verið um aðkomu Seðlabanka Íslands og að til slíkra aðgerða kynni að koma en bankinn hefur hins vegar varað við þeim og sagt þær ígildi peningaprentunar og stefna lánshæfi ríkissjóðs í hættu. Sigmundur Davíð hefur á móti sakað seðlabankann um að vera í pólitík. Seðlabankinn hafði áður gagnrýnt áætlun stjórnvalda í skuldamálum heimilanna og sagt hana dýra og óskilvirka.

Gert er ráð fyrir því að öðru leyti í stjórnarsáttmálanum að tekið verði „á skuldavanda íslenskra heimila sem er til kominn vegna hinnar ófyrirsjáanlegu höfuðstólshækkunar verðtryggðra lána sem leiddi af hruni fjármálakerfisins. Grunnviðmiðið er að ná fram leiðréttingu vegna verðbólguskots áranna 2007–2010 en í því augnamiði má beita bæði beinni niðurfærslu höfuðstóls og skattalegum aðgerðum.“ Eins og fram kemur í upphafi er gert ráð fyrir að niðurstöður sérfræðingahóps ríkisstjórnarinnar og útfærsla á aðgerðum stjórnvalda liggi fyrir í þessum mánuði og því enn óljóst hvernig þær verða nákvæmlega útfærðar.

Samþykkt var á sumarþingi þingsályktunartillaga forsætisráðherra þar sem gert var ráð fyrir tíu skrefa aðgerðaáætlun stjórnvalda. Meðal þess sem liggja á fyrir í þessum mánuði samkvæmt áætluninni eru tillögur sérfræðihóps að mismunandi leiðum til þess að ná fram höfuðstólslækkun verðtryggðra húsnæðislána og úttekt á kostum og göllum þess að stofna áðurnefndan leiðréttingarsjóð og útfærslur í þeim efnum. Þá er ennfremur gert ráð fyrir að tillögur sérfræðingahóps um afnám verðtryggingar af neytendalánum og tímasett áætlun liggi fyrir í lok þessa árs.

Ekki hægt að ræða tillögur sem ekki liggi fyrir

Sigmundur Davíð upplýsti ennfremur á Alþingi 7. nóvember að frumvarp yrði lagt fram í lok nóvember um það hvernig eignalausum einstaklingum verði gert mögulegt að greiða kostnað vegna gjaldþrotaskipta á búi sínu en upphaflega stóð það til í september. Hann sagði ennfremur að tveimur af tíu skrefum áætlunar stjórnvalda væri þá lokið. Eitt skrefið, þess efnis að kannaðir yrðu möguleikar á því að leggja gjald á fjármálafyrirtæki vegna tafa á endurútreikningi lána, hefði hins vegar reynst óframkvæmanlegt að mati sérfræðingahóps.

Annað skref, sem felur í sér að lagt verði fram frumvarp á haustþingi í tengslum við endurskoðun stimpilgjalda af lánsskjölum og þá stefnu stjórnvalda að afnema stimpilgjöld vegna kaupa einstaklinga á húsnæði til eigin nota, hefur ekki enn verið framkvæmt. Þá var gert ráð fyrir því að tillögur um það hvernig gera mætti eigendum yfirskuldsettra íbúða kleift að losna án gjaldþrots undan eftirstöðvum sem veðið sjálft stæði ekki undir, svonefnt lyklafrumvarp, lægju fyrir í september en þær liggja ekki fyrir.

Stjórnarandstæðingar hafa meðal annars gagnrýnt ríkisstjórnina fyrir það að ekki liggi fyrir með hvaða hætti eigi að fjármagna aðgerðir stjórnvalda og rifjað upp yfirlýsingar Sigmundar Davíðs bæði fyrir og eftir kosningar um að kostnaðurinn vegna þeirra myndi ekki lenda á ríkissjóði. Þá hafa stjórnarandstæðingar sagt að enginn viti í raun hvernig stjórnvöld ætli að taka á málinu. Stjórnarliðar hafa á móti lagt áherslu á að bíða yrði eftir tillögum sérfræðingahópa. Ekki sé hægt að ræða tillögur sem ekki liggi fyrir.

mbl.is/Sigurður Bogi
mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert