Vísaði ábyrgðinni á ríkisstjórnina

Illugi Gunnarsson, menntamálaráðherra, hlýðir á fyrirspurn Brynhildar Pétursdóttur, þingmanns Bjartrar ...
Illugi Gunnarsson, menntamálaráðherra, hlýðir á fyrirspurn Brynhildar Pétursdóttur, þingmanns Bjartrar framtíðar. mbl.is/Kristinn Ingvarsson

Ráðherrar ríkisstjórnarinnar voru spurðir að því á Alþingi í dag hvort niðurskurður í rekstri Ríkisútvarpsins sem boðaður væri í fjárlagafrumvarpinu fæli í sér pólitískar hreinsanir og hvort verið væri að standa við hótanir formanns fjárlaganefndar Alþingis í garð stofnunarinnar með honum. Tilefnið var uppsagnir tuga starfsmanna Ríkisútvarpsins sem tilkynnt var um í dag.

Illugi Gunnarsson, menntamálaráðherra, sagði að með engu móti væri hægt að líta þannig á að verið væri að hafa óeðlileg áhrif á rekstur Ríkisútvarpsins með fjárlagafrumvarpinu í svari við fyrirspurn frá Svandísi Svavarsdóttur, þingflokksformanni Vinstrihreyfingarinnar - græns framboðs. Bæði Svandís, Helgi Hjörvar, þingmaður Samfylkingarinnar, og Brynhildur Pétursdóttir, þingmaður Bjartrar framtíðar, héldu því fram að formaður fjárlaganefndar Alþingis, Vigdís Hauksdóttir, hefði hótað Ríkisútvarpinu minni fjárveitingum vegna umfjöllunar þess og spurðu hvort verið væri að standa við þær hótanir. Lýsti Svandís fullri ábyrgð á uppsögnunum á hendur ríkisstjórninni.

„Sannarlega var gripið til þess í neyðinni eftir hrunið að taka í ríkissjóð hluta þeirra tekna, en sem betur fer tókst að standa vörð um starfsemi Ríkisútvarpsins þannig að þar fækkaði þó aðeins um fjóra tugi starfsmanna á erfiðustu tímum Íslandssögunnar. Núna þegar við sjáum til lands, þegar við sjáum fram á jafnvægi í ríkisfjármálum getur það ekki gengið þannig fram í forgangsröðun ríkisfjármála að 60 starfsmenn Ríkisútvarpsins missi vinnuna, að fjórðungur kjarnastofnunar þjóðmenningar á Íslandi sé skorinn burtu án þess að nokkur pólitísk umræða hafi farið fram um það hér í þinginu,“ sagði Helgi ennfremur.

Nauðsynlegt að hagræða hjá RÚV eins og víðar

Helgi spurði Bjarna Benediktsson, fjármálaráðherra, ennfremur hvort hann væri reiðubúinn að endurskoða fjárlagafrumvarpið og tryggja að Ríkisútvarpið fengi útvarpsgjaldið að fullu til þess að forðast mætti það slys sem uppsagnir starfsmanna stofnunarinnar væri. Bjarni svaraði því til að hagræða þyrfti hjá Ríkisútvarpinu eins og víðar í ljósi þröngrar stöðu ríkissjóðs. Rifjaði hann upp að samtals hefðu um 50 manns verið sagt upp störfum í tíð síðustu ríkisstjórnar vegna minni fjárveitinga.

Illugi rifjaði upp að Ríkisútvarpið hefði gagnrýnt fyrri ríkisstjórn harðlega og sagt niðurskurðinn í hennar tíð vega að ritstjórnarlegu sjálfstæði stofnunarinnar. Hann hefði ekki verið sammála þeirri gagnrýni heldur hefðu stjórnvöld á þeim tíma verið að bregðast við vegna nauðvarnar. Sama staða væri upp á teningnum núna. Þá rifjuðu ráðherrarnir upp að ákveðið hefði verið af fyrri ríkisstjórn að útvarpsgjaldið rynni ekki að fullu til Ríkisútvarpsins. Hins vegar sagði Bjarni að gert væri ráð fyrir því í fjárlagafrumvarpinu að unnið yrði að því að svo yrði í framtíðinni.

mbl.is