Góð áminning að ganga fram á lík

Fjallageitur á Everest-fjalli.
Fjallageitur á Everest-fjalli. EPA

Húsfyllir var í Háskólabíói í gærkvöld þegar fjallgöngumaðurinn Ed Viesturs flutti þar erindi um fjallamennsku. Raunar komust færri að en vildu.

Ed Viesturs er rúmlega fimmtugur Bandaríkjamaður. Hann hefur klifið hæsta fjall heims, Everest, ellefu sinnum og komist á toppinn sjö sinnum. Á meðal fjallgöngumanna er hann lifandi goðsögn og standa fáir honum jafnfætis. Hann kleif fjórtán hæstu tinda veraldar fyrstur Bandaríkjamanna en örfáir hafa gert það án viðbótarsúrefnis.

Viesturs dvelur ekki lengi á Íslandi og notar tíma sinn því vel. Fyrsta verk hans var að fara í Bláa lónið ásamt fjölskyldu sinni og kippti sér ekki upp við það þótt töluvert rót væri á lóninu í rigningunni vegna hins rammíslenska veðurfars. Maður sem hefur samtals varið tugum mánaða á Everest í hrakviðri getur ekki kvartað yfir okkar annars ágætu veðráttu.

Megintilgangur ferðar Viesturs hingað til lands var að flytja fyrirlesturinn í gærkvöldið á Háfjallakvöldi. Fyrir því stóðu Vinir Vatnajökuls, 66°Norður og Félag íslenskra fjallalækna.

Endeavor 8000

Í fyrirlestrinum sagði Viesturs frá leiðangri sem vakti verðskuldaða heimsathygli. Leiðangurinn tók átján ár og nefnist Endeavor 8000 og kleif Viesturs alla 14 hæstu tinda veraldar. Einna frækilegastar þóttu göngur hans á tvö hættulegustu fjöll heims; K2 og Annapurna, en á því síðarnefnda hefur þriðji hver sem reynir við fjallið látið lífið.

Viesturs er eftirsóttur fyrirlesari og nokkuð tíður gestur í spjallþáttum auk þess sem viðtöl við hann hafa birst í National Geographic og sambærilegum tímaritum. Raunar varð hættuför hans upp á K2 til þess að hann skrifaði bókina K2: Life and Death on the World's Most Dangerous Mountain sem er metsölubók. Hann nýtur þess að sigrast á náttúruöflunum og vill gjarnan segja öðrum frá því hvernig skal byggja sig upp andlega og líkamlega fyrir hættulega leiðangra.

Ástríðan er drifkraftur

Eitt af því fyrsta sem Viesturs útskýrir fyrir blaðamanni um fjallgöngur er að án ástríðunnar verði há fjöll á borð við Mount Everest ekki klifin. „Gangan er óþægileg og erfið, það er kalt og þetta tekur langan tíma. Það er nauðsynlegt að njóta þessara aðstæðna og sé ástríðan ekki til staðar er ómögulegt að vinna afrek. Þegar maður er kominn að Everest þar sem hæsti punktur veraldar er, verður það eina takmarkið að komast þangað upp, sama hversu langan tíma það kann að taka,“ segir Viestur. „Þegar að hæsta punktinum er náð gerir maður sér fyllilega ljóst að þetta var erfiðisins virði. Þá veit maður að allt sem maður lagði í þetta var til þess að finna þessa óútskýranlegu fullnægju þegar maður kemst loksins á toppinn,“ útskýrir hann.

Leiðangur á Everest tekur á bilinu tvo og hálfan til þrjá mánuði. Í þeim ellefu leiðöngrum sem Viesturs hefur farið á fjallið hafa ferðafélagar hans verið frá einum til níu. Stærri vill hann ekki hafa hópinn og útskýrir að minnstu hóparnir séu bestir.

„Leiðangrar sem samanstanda af fáum eru mun líklegri til að verða árangursríkir. Þeir eru ódýrari og minni hætta á ágreiningi. Það liggur í hlutarins eðli að í tíu manna hópi sem ver þremur mánuðum saman á fjöllum kemur alltaf eitthvað upp sem menn eru ósammála um,“ segir Viesturs.

Breytt siðferði í fjallaferðum

Ferðamannastraumurinn á hæsta fjall veraldar er orðinn töluverður og á ferðum Viesturs þangað síðastliðin tuttugu og þrjú ár hefur margt breyst varðandi siðferði fjallafólks og tilgangur ferðanna er ekki sá sami og áður fyrr.

„Fyrst var þetta þannig að kannski fór tíu manna hópur saman af stað og einn eða tveir náðu alla leið upp á topp. Fólk vann saman og hjálpaðist að þrátt fyrir að einungis hluti næði takmarkinu. Í dag kaupa margir ferðir þangað upp og einstaklingshyggjan er orðin mun meiri. Í augum margra skiptir öllu að þeir sjálfir komist á toppinn en þeim er í raun sama um aðra,“ segir Viesturs um þá breytingu sem orðið hefur á eðli leiðangranna.

Margir hafa greitt fúlgur fjár fyrir leiðangur upp á Everest og segir Viesturs að hugsunarháttur þess hóps sé ólíkur því sem hann þekkir. „Það eina sem skiptir máli er að þeir nái á tindinn og svo flýta þeir sér heim til að segja öllum frá því að þeim hafi tekist það. Allt annað, eins og ferlið sjálft og undirbúningurinn virðist vera utan við efnið. Sem betur fer er þó enn til fólk sem fer þangað upp ánægjunnar og ferðalagsins vegna,“ segir hann.

Árið 2007 voru 633 tilraunir gerðar til að komast á toppinn og tókst það hjá 350 fjallgöngumönnum. Sjerparnir sem fara í ferðirnar með fjallgöngumönnunum eru ekki inni í þessum tölum en þeir voru 253. Þremur árum síðar, 2010 voru enn fleiri atlögur gerðar að tindinum eða rúmlega 5000. Af þeim komust rúmlega 3100 fjallgöngumenn á tindinn. Það er því ljóst að aukningin er gríðarleg.

Í leiðöngrum Viesturs á Everest seint á áttunda áratugnum eða snemma á þeim níunda var sjaldgæft að mæta öðrum hópum á þessari þriggja mánaða leið. „Maður mætti kannski einum til tveimur hópum á þessu langa ferðalagi og það mynduðust vináttubönd við þá. Við hjálpuðumst að af þeirri einföldu ástæðu að við vorum öll þarna í nákvæmlega sama tilgangi og erindagjörðum. Við borðuðum meira að segja saman. Svona man ég eftir þessu. Auðvitað er þetta gjörbreytt í dag því fæstir kæra sig um að deila nokkru með öðrum.“

Aðgöngumiði á tindinn

Viesturs segir einn reginmisskilning ríkjandi og hann er sá að fólk heldur að það geti keypt sér aðgöngumiða á tindinn. „Það er einfaldlega ekki hægt. Með því að greiða offjár fyrir ferðina gera margir ráð fyrir að þeir séu bornir eða þeim hreinlega ýtt upp á fjallið en það er ekki þannig. Sögur af slíku eru ekki sannar því hver og einn þarf að klífa þetta fjall. Fólk getur varið milljón dollara í svona leiðangur en það þýðir alls ekki að það komist á toppinn. Þangað verður þú að koma þér sjálfur,“ segir Viesturs.

Hann talar af mikilli reynslu því erfitt getur reynst að komast upp og jafnvel ómögulegt ef veðuraðstæður eru slíkar. „Ég komst á toppinn eftir þrjár misheppnaðar tilraunir. Í fyrsta skiptið munaði bara hundrað metrum en það gekk ekki vegna veðurs. Það var ömurleg tilhugsun að þurfa að fara aftur niður, yfir hverja nibbu aftur, án þess að hafa náð upp og það munaði bara þessum hundrað metrum. Eftir að hafa gert það var alveg grjótmagnað að standa svo á toppnum, aleinn. Það er einstök upplifun.“

Að koma niður af fjallinu

Það hlýtur að vekja ýmsar tilfinningar að komast aftur til byggða eftir svo langt úthald. Viesturs segir að það sé alltaf mjög sérstakt. „Það er svo sannarlega mjög sérstakt. Eftir fyrstu ferðirnar var upplifunin mjög sterk þegar maður kom til byggða í öll þægindin. Fyrst fannst mér það alveg klikkað en nú hef ég farið í svo marga leiðangra þannig að viðbrigðin eru ekki jafnrosaleg. Það er samt alltaf notalegt að koma heim til fjölskyldunnar í hlýtt húsnæði, ísskáp með köldum mat og salerni sem hægt er að sturta niður í. Allir þessir hlutir sem svo auðvelt er að taka sem sjálfsögðum en þegar maður kemur aftur þá kann maður enn betur að meta þá.

Snjómaðurinn ógurlegi

Ef snjómaðurinn frægi væri raunverulegur mætti vissulega gera ráð fyrir að maður sem hefur ellefu sinnum varið þar þremur mánuðum í senn, hefði hugsanlega rekist á sönnunargögn um tilvist hans. Sú er þó ekki raunin. Viesturs hefur hvorki séð tangur né tetur af snjómanninum. „Ég held samt að fólk skimi alltaf eftir honum en ég hef ekki séð hann ennþá. Þó ég hafi ekki beinlínis leitað á honum þá má gera ráð fyrir að ef maður er á einhverjum stað nógu lengi þá muni maður sjá það sem þar kann að vera á ferli. Ég hugsa að það merkilegasta sem ég hef séð sé snæhlébarði og hann sá ég í Tíbet og það var ótrúlega magnað,“ segir hann.

Ruslið og líkin á fjallinu

Nokkuð hefur verið fjallað um alls kyns rusl sem fólk skilur eftir á fjallinu. Sumir halda að súrefnishylki séu á víð og dreif ásamt öðru óskemmtilegu en Viesturs segir svo ekki vera. Ekki lengur.

„Á síðustu áratugum hefur mikið verið lagt í hreinsunarstarf og fyrir þremur árum, í síðustu ferð minni þangað rakst ég ekki á eitt einasta súrefnishylki,“ segir hann. „Það er hreinna á Everest núna en það hefur verið í fjöldamörg ár.“

Hreinsunarstörf standa enn yfir en þó er ekki unnt að fjarlægja jarðneskar leifar látinna göngumanna sem eru víða á fjallinu. „Það er einfaldlega of flókið að flytja lík niður af efsta hluta fjallsins, kannski úr átta þúsund metra hæð og það er bara hinn bitri veruleiki. Það er ekki eins og það séu lík alls staðar en það er eitt og eitt á stangli. Sjálfur horfi ég á þetta sem ákveðna áminningu um hvað getur gerst ef maður gerir mistök eða tekur ranga ákvörðun því hlutirnir breytast mjög hratt þarna uppi,“ segir Viesturs.

Næsta mál á dagskrá

Viesturs er vanur því að fá spurninguna: „Og hvað ætlarðu að gera næst?“ Í öll þessi ár hefur verið hægt að spyrja þessarar spurningar en í dag má í raun segja að hann sé orðinn rólegur maður á besta aldri og því sé ekkert span á honum. Hann er auðvitað ekki hættur í sportinu en hlutverk hans er eilítið breytt. „Ég fer í styttri leiðangra, flyt fyrirlestra og fleira í þeim dúr en ég er búinn með stærstu fjöllin,“ segir fjallgöngumaðurinn Ed Viesturs.  

Fjallgöngumaðurinn Ed Viesturs.
Fjallgöngumaðurinn Ed Viesturs. mbl.is
Everest er hæsta fjall heims.
Everest er hæsta fjall heims. EPA
Tindur Everest fjalls.
Tindur Everest fjalls. AFP
mbl.is

Bloggað um fréttina