Skert þjónusta við fyrirbura mistök

AFP

Foreldrar fyrirbura eru afar óánægðir með þá ákvörðun Heilsugæslu höfuðborgarsvæðisins að færa ung- og smábarnavernd fyrirbura yfir á almennar heilsugæslustöðvar og að sérhæfð miðlæg þjónusta við þennan hóp verði lögð niður. „Ég held að þetta séu mikil mistök,“ segir móðir í samtali við mbl.is.

Frá árinu 2006 hefur sérhæfð ung- og smábarnavernd verið í boði á höfuðborgarsvæðinu fyrir börn fædd eru fyrir 32. viku meðgöngu og/eða vega innan við 1.500 grömm. Frá og með næstu áramótum verður þessi sérhæfða þjónusta ekki í boði.

Á vef Heilsugæslu höfuðborgarsvæðisins segir, að markmið þjónustunnar sé að fylgjast reglulega með heilsu og framvindu á þroska fyrirbura. Þannig sé fylgst með vitsmuna- og tilfinningaþroska, ásamt félagslegum og líkamlegum þroska frá fæðingu til sex ára aldurs. Áhersla sé lögð á stuðning við fjölskylduna og þannig stuðlað að því að börnum séu búin bestu möguleg uppvaxtarskilyrði á hverjum tíma. Veitt er ráðgjöf og fræðsla og börnin bólusett. Við frávik beri að tryggja að barn fái viðeigandi stuðning og þjónustu fagaðila.

Þjónustan hefur verið til fyrirmyndar

Auður Elva Kjartansdóttir eignaðist fyrirbura árið 2008. Hún kveðst vera afar þakklát fyrir að hafa eignast son sinn á þeim tíma þar sem þessi þjónusta var í boði, sem hún segir að hafi verið til fyrirmyndar. 

Með breytingunni færist þjónustan inn á heilsugæslustöðvar. Auður segir það slæma þróun og í raun mikil mistök. Á heilsugæslustöðvum í borginni sé um það bil hálfs árs bið og hún tekur fram að fyrirburar þurfi á allt öðruvísi þjónustu að halda heldur en fullburða börn, eitthvað sem Auður þekkir af eigin raun.

Hún bendir jafnframt á mikilvægi snemmtækrar íhlutunar, þ.e. að bregðast hratt við. Það sé í raun ekki boði fyrir fyrirbura að þurfa að bíða í hálft eftir eftir þjónustu.

Fyrirburar þurfa á sérhæfðri þjónustu að halda

„Mér finnst alveg hræðilegt til þess að hugsa að það séu foreldrar í dag sem mundu fara heim með svona litla einstaklinga - eins og ég hef upplifað - sem fá ekki þessa þjónustu sem ég fékk. Þeir eru kannski að fá sömu þjónustu og maður fær með heilbrigð börn á heilsugæslustöð, sem er vægast sagt algjörlega í lágmarki.“

Auður tekur fram að í umræðu um fyrirbura sé talað um lífaldur og áætlaðan aldur. „Ég er ekkert viss um að allar heilsugæsluljósmæður viti það að það eigi ekki að fylgja lífaldri hvenær eigi að gefa fyrirburum að borða. Það er alveg ótrúlega margt sem er mjög sérstakt og snúið,“ segir hún varðandi þá þjónustu sem fyrirburar þurfi á að halda.

Það sé t.d. tvennt ólíkt að gefa heilbrigðu barni eða fyrirbura brjóst, en fyrirburar drekki ekki beint af brjósti. „Það þarf mjaltavélar og það þarf hatta; svona litlir fyrirburar þeir hafa ekki þann þroska sem heilbrigð börn hafa til að sjúga eins og fullburða börn.“

Vilja að ákvörðunin verði endurskoðuð

Félag fyrirburaforeldra hafa gert athugasemdir við þessa ákvörðun og hafa sent Heilsugæslu höfuðborgarsvæðisins og til heilbrigðisyfirvald bréf þar sem þær eru tíundaðar. Þá óska þeir þess að ákvörðunin verði endurskoðuð.

Í bréfinu lagðar fram eftirfarandi spurningar:

  1. Hver eru rökin fyrir því að leggja niður miðlægt, sérhæft ung- og smábarnaeftirlit fyrir fyrirbura?
     
  2. Hver er raunverulegur kostnaður við þessa þjónustu?
     
  3. Hvernig á að tryggja það að þjónusta við fyrirburar skerðist ekki við þessar breytingar?
     
  4. Hvernig á að meta árangur af þjónustu við fyrirbura síðar meir ef þessar breytingar ná fram að ganga?

Í bréfinu segir m.a.: „Í ljósi alls þess sem upp er talið þá kemur það okkur á óvart að ákvörðun hafi verið tekin um að færa þjónustu við fyrirbura út á almennar heilsugæslustöðvar og leggja niður þá góðu miðlægu þjónustu sem hefur verið í boði. Í sérhæfðri heilsugæslu hefur safnast upp þekking á þeim tæpum sjö árum sem þjónustan hefur verið starfrækt. Þar eru stuttar boðleiðir, foreldrar geta leitað beint þangað og talað við fagfólk sem það þekkir og sem þekkir sögu barna þeirra. Sérhæft starfsfólk veit hvenær þarf að bregðast við hugsanlegum heilsuvanda eða vísbendingum um þroskafrávik og í hvaða tilvikum nægir að veita upplýsingar og draga úr kvíða.“

Upplýsingar um fyrirbura

AFP
mbl.is