Refsitæki eða forvarnir?

Skjáskot af vefsvæðinu stondumsaman.com.
Skjáskot af vefsvæðinu stondumsaman.com. Skjáskot

„Vefurinn er fyrst og fremst upplýsingaveita um forvarnir fyrir foreldra,“ segir á vefnum Stöndum saman þar sem birtar eru upplýsingar um menn sem dæmdir hafa verið fyrir kynferðisbrot. Þá eru myndir af mönnunum einnig birtar. Þar segir einnig að birting upplýsinganna hafi verið kærð til lögreglu.

Raunar er tekið fram að birting upplýsinga um tiltekinn mann, sem hlaut sex mánaða skilorðsbundið fangelsi fyrir brot gegn 16 ára stúlku, hafi verið kærð til lögreglu. „Þar sem við teljum birtinguna hafa verið réttlætanlega í ljósi þess í hvaða stöðu [...] var gagnvart fórnarlambi sínu sjáum við ekki tilefni til þess að verða við beiðni lögmannsins og erum tilbúin að láta reyna á málið fyrir dómstólum ef svo ber undir,“ segir á síðunni.

Lögmaður mannsins er Vilhjálmur H. Vilhjálmsson. Hann skrifar á eigin vefsvæði í dag hugleiðingu um refsitækið sem það er að birta nöfn og myndir manna sem eiga að hafa framið tiltekna tegund afbrota á netinu. „Það er hlutverk dómstóla að dæma menn til refsingar. Gapastokkurinn var aflagður sem refsitæki á Íslandi 1808. Látum hann hvíla í friði.“

Dómstóll götunnar fellir dóm

Vilhjálmur segir að allir eigi rétt til friðhelgi einkalífs, heimilis og fjölskyldu, en sá réttur feli meðal annars í sér réttinn til eigin myndar og æruverndar. Með sama hætti eigi allir rétt til réttlátrar og mannúðlegrar málsmeðferðar fyrir sjálfstæðum og óvilhöllum dómstóli. „Með framangreindum nafn- og myndbirtingum á netinu er í mörgum tilvikum brotið gegn þessum grundvallarréttindum. Ýmist með ærumeiðandi aðdróttunum eða brigslum. Þannig felur það í sér ærumeiðandi aðdróttun og varðar við almenn hegningarlög að kalla mann barnaníðing sem hefur ekki framið slíkt brot. Þá eru það refsiverð brigsl að gera að ósekju gamlan refsidóm opinberlega að umtalsefni.&ldquo

Hann segir að afbrot þeirra manna sem eru nafn- og myndbirtir á síðunni séu jafn misjöfn og þau eru mörg. „Hvað sem þeirri staðreynd líður þá telur þessi dómstóll götunnar sig umkominn að fella þann dóm yfir öllum þessum mönnum að þeir séu barnaníðingar. Jafnvel þó augljóst sé í tilvikum sumra að viðkomandi hafi ekki hlotið dóm fyrir slíka háttsemi. Þetta gerir dómstóllinn kinnroðalaust jafnvel þó að máli viðkomandi hafi verið áfrýjað til Hæstaréttar þar sem það bíður meðferðar, endurskoðunar og dóms.“

Hótanir hafa engin áhrif

Á umræddu vefsvæði segir að Ísland sé lítið samfélag og barnaníð eigi ekki að líðast í svo litlu samfélagi. „Ásamt því að veita upplýsingar um forvarnir upplýsir síðan um þá sem hafa verið dæmdir fyrir barnaníð á Íslandi sem og íslendinga sem hafa verið dæmdir erlendis fyrir barnaníð,“ segir þar einnig.

Þá er þess getið að öllum lögfræðilegum hótunum verði „tekið fagnandi“, „en áður en þú eyðir þínum dýrmæta tíma í að skrifa það bréf/tölvupóst þá er best að taka það fram að slíkar hótanir hafa engin áhrif á starf samtakanna“.

Vilhjálmur Hans Vilhjálmsson
Vilhjálmur Hans Vilhjálmsson mbl.is/Sigurgeir
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert