Barnalæknar mótmæla skerðingu

Fyrirburar glíma við fjölbreyttan heilsufarsvanda.
Fyrirburar glíma við fjölbreyttan heilsufarsvanda. AFP

Stór hluti fyrirbura á höfuðborgarsvæðinu sem fæðast eftir 27 til 32 vikna meðgöngu glímir við fjölbreyttan heilsufarsvanda og meirihlutinn kljáist við vanda á sviði þroska, hegðunar og líðunar. Því er mikilvægt að eftirfylgd sé markviss og brugðist við vanda á skjótan hátt.

Þetta segir í ályktun frá stjórn Félags íslenskra barnalækna, sem send var Svanhvíti Jakobsdóttir forstjóra Heilsugæslu höfuðborgarsvæðisins í dag.

Barnalæknar mótmæla harðlega fyrirhuguðum breytingum, en til stendur að færa ung- og smábarnavernd fyrirbura yfir á almennar heilsugæslustöðvar og að sérhæfð, miðlæg þjónusta við þennan hóp verði lögð niður, eins og mbl.is hefur sagt frá.

Fram kemur í bréfi Félags barnalækna að einkenni hjá fyrirburum séu gjarnan sértæk, þannig að viðeigandi menntun, þjálfun og reynsla starfsmanna sem sinna eftirliti sé nauðsynleg.

„Félagið telur að barnalæknar gegni hér veigamiklu hlutverki. Gjarnan er mælt með miðlægu og þverfaglegu þekkningarsetri í þessu sambandi. Tilhneigingin hér á landi hingað til og í nágrannalöndum hefur verið sú að efla sérþekkingu á þessu sviði og það telur fálegið hafa verið faglega og fjölskylduvæna þróun.“

Stjórn félagsins harmar þróun mála og óskar eftir endurskoðun á ákvörðun Heilsugæslunnar.

Skert þjónusta við fyrirbura mistök

mbl.is

Bloggað um fréttina