Setja upp sýningu með fatnaði Vigdísar

Mæðgurnar Vigdís Finnbogadóttir og Ástríður Magnúsdóttir ásamt Guðríði Hildi Rosenkjær …
Mæðgurnar Vigdís Finnbogadóttir og Ástríður Magnúsdóttir ásamt Guðríði Hildi Rosenkjær klæðskera- og kjólameistara mbl.is

Hlutverk Hönnunarsafns Íslands í Garðabæ er m.a. að safna og varðveita muni sem varða sögu íslenskrar hönnunar. Til safnkostsins teljast m.a. húsgögn, prentgripir, nytjalist og fatnaður. „Eitt af markmiðum okkar er að styrkja tilfinningu fyrir þeirri menningu sem felst í hönnun,“ segir Harpa Þórsdóttir, forstöðumaður Hönnunarsafnsins, sem er til húsa á Garðatorgi 1.

Harpa segir að munir safnsins séu allt frá upphafi 20. aldar og fram til dagsins í dag. Þeir hlutir sem valdir eru inn á safnið þurfi að búa yfir sérstöðu og skipta máli út frá ólíkum þáttum sem eru vegnir og metnir hverju sinni.

Glæsileg frá fyrsta degi

Núna er í Hönnunarsafninu sýningin Óvænt kynni, en þar er sjónum beint að þætti módernismans í íslenskri híbýlamenningu á síðustu öld. Framundan er sýning á verkum norskra samtímalistamanna sem fást við listhandverk á borð við málm-, gler- og keramikvinnslu og verið er að undirbúa sýningu á fatnaði Vigdísar Finnbogadóttur úr embættistíð hennar sem forseta.

„Eitt af okkar mörgu hlutverkum er að varpa fram ýmsum spurningum í sambandi við líf fólks. Vigdís stóð ekki aðeins frammi fyrir því sem fyrsti lýðræðiskjörni kvenforsetinn að ryðja braut kvenna til nýrra metorða, heldur stóð hún líka frammi fyrir því að móta hefð um klæðaburð fyrir konu í slíku embætti. Hún lagði mikla áherslu á, frá fyrsta degi, að vera glæsileg til fara.“

Harpa segir að Vigdís hafi gert sér far um að kynna íslenska framleiðslu í heimsóknum sínum á erlendri grundu. 20-30 flíkur Vigdísar verða til sýnis og þar verður líka fræðsludagskrá um klæðaburð.

Sýningin með fatnaði Vigdísar verður opnuð í byrjun febrúar á næsta ári.

Harpa Þórsdóttir, forstöðumaður Hönnunarsafnsins
Harpa Þórsdóttir, forstöðumaður Hönnunarsafnsins mbl.is/Kristinn Ingvarsson
Stóllinn Sóley
Stóllinn Sóley mbl.is/Kristinn Ingvarsson
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert