Hakkari birtir persónuupplýsingar

Hakkarinn AgentCoOfficial sagði frá árásinni á vefsíðu Vodafone á Twitter …
Hakkarinn AgentCoOfficial sagði frá árásinni á vefsíðu Vodafone á Twitter í morgun.

Netárásin sem gerð var á Vodafone á Íslandi í nótt virðist hafa verið alvarleg. Hakkarinn segist hafa náð persónuupplýsingum um 70.000 notendur og hefur nú þegar birt þær á netinu. Þar á meðal eru notendanöfn og sms skilaboð.

Drífa mig, Það er mér mikið kappsmál að fá að leiðrétta þetta mál sem fyrst. Því þetta er eins og þú segir niðurlægjandi fyrir mig og þig og ég get ekki setið undir því. Sama hvað verður um okkar samband. Endilega finndu tíma til að hittast."

Þannig hljóðar eitt af þúsundum sms skilaboða, alls um 25-30 mb, sem hakkari sem kallar sig Agent CoOfficial, eða Maxn3y, birti á netinu í nótt. Skilaboðin eru mörg hver afar persónuleg.

Í a.m.k. einhverjum tilfellum eru skilaboðin rekjanleg þar sem símanúmer viðtakandans er birt með. Svo virðist sem um sé að ræða textaskilaboð sem send voru í gegnum heimasíðu Vodafone á árinu 2011.

„vodafone.is er hökkuð 77 þúsund notendanöfn og 22 b sms...hökkuð!“ segir í tísti frá hakkaranum á Twitter fyrir 8 klukkustundum, þar sem hann birtir gögnin sem hann komst yfir.

Auk sms skilaboða virðast þar notendanöfn, ip-tölur, tölvupóstföng, símanúmer og full nöfn og kennitölur, ógild kreditkortanúmer og upphæðir færslna á þeim ásamt dagsetningum.

Lykilorðin sem hann komst yfir virðast flest vera dulkóðuð, en þó ekki öll. Bankaupplýsingar sem birtast eru ekki fullkomnar.

Hakkarinn birtir einnig excel-skjal með 31 nafni og netfangi hjá forstjórum sumra af stærstu stofnunum og fyrirtækjum landsins, sem hann mun hafa sótt úr gagnagrunni Vodafone.

Síðunni lokað eftir árásina

Að sögn vefsíðunnar Cyber War News hefur þessi tiltekni tölvuþrjótur áður gert árásir á og lekið upplýsingum frá fyrirtækjum, þ.á.m. skyndibitakeðjum, bandarískum borgarstjórnum og flugvöllum.

Vodafone á Íslandi lokaði fyrir aðgang að heimasíðunni í nótt vegna árásarinnar, til að tryggja öryggi. Í tilkynningu sem Vodafone sendi frá sér fyrir um klukkustund sagði að ekkert benti til þess að trúnaðarupplýsingar hefðu komist í rangar hendur, en að unnið sé markvisst að greiningu á öllum þáttum árásarinnar.

Opnað verður fyrir aðgang að síðunni í áföngum á næstu klukkustundum og verður fyrst um sinn lokað fyrir aðgang að henni frá útlöndum.

Netárás á heimasíðu Vodavone

Hakkarinn AgentCoOfficial birti þetta skjáskot á Twitter síðu sinni í …
Hakkarinn AgentCoOfficial birti þetta skjáskot á Twitter síðu sinni í morgun.
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert