Mikilvægt að ná sátt um sjávarútveginn

mbl.is/Sigurður Bogi

Mikilvægt er að ná sátt um sjávarútveginn enda um að ræða undirstöðuatvinnuveg þjóðarinnar. Þetta kom fram í máli Bjarna Benediktssonar, fjármálaráðherra, í hringborðsumræðum í tónlistar- og ráðstefnuhúsinu Hörpu í tilefni af 100 ára afmæli Morgunblaðsins sem voru sýndar í beinni útsendingu hér á mbl.is

Sigmundur Davíð Gunnlaugsson, forsætisráðherra, sagði að stefnt væri að því að fara svokallaða samningaleið í þeim efnum eins og Sigurður Ingi Jóhannsson, sjávarútvegsráðherra, hefði kynnt og væri vinna hafin í sjávarútvegsráðuneytinu í þeim efnum. Benti hann á að síðasta ríkisstjórn Noregs, sem verið hefði vinstristjórn, hefði lagt áherslu á að ná sátt um sjávarútveginn þar í landi en síðasta vinstristjórn Íslands hefði hins vegar viðhaldið óvissu um sjávarútveginn hér á landi og ýtt reglulega undir hana. Nú væri hins vegar kominn stöðugleiki í þeim efnum hér á landi og ekkert að vanbúnaði að hefja uppbyggingu í greininni.

Bjarni benti á að ekki mætti gleyma að nýsköpun sprytti oft út frá grunnatvinnuvegunum. Fjöldi fyrirtækja byggði starfsemi sina á góðum árangri þar. Allur almenningur nyti raunar góðs af góðu gengi sjávarútvegsins. Hann sagði umræðuna um veiðigjald framan af hafa verið nokkuð málefnalega. Upphaflega hefði verið rætt um að koma á hóflegu gjaldi en umræðan væri nú komin langt frá upprunanum. Tímabært væri að umræðan yrði málefnalegri og snerist ekki um tímabundna fjárþörf ríkisins og slagorð. 

Bjarni Benediktsson og Sigmundur Davíð Gunnlaugsson.
Bjarni Benediktsson og Sigmundur Davíð Gunnlaugsson. mbl.is/Ómar Óskarsson
mbl.is

Bloggað um fréttina