Högl og forhlöð á víð og dreif

Nemar í Lögregluskólanum aðstoðuðu lögregluna við að fínkemba svæði fyrir …
Nemar í Lögregluskólanum aðstoðuðu lögregluna við að fínkemba svæði fyrir utan húsið í Hraunbæ þar sem maður skaut á lögregluna. mbl.is/Júlíus

Rannsókn á vettvangi vegna skotbardagans í Árbæ stóð yfir í allan dag og  fengu ekki allir íbúar að snúa til síns heima á meðan henni stóð. Meðal annars voru nemar úr Lögregluskólanum fengnir til aðstoðar og fínkembdu þeir svæðið í leit að höglum og forhlöðum. Þau voru á víð og dreif á bílastæðinu.

Maðurinn sem féll í skotbardaganum við lögregluna skaut meðal annars út um glugga á íbúð sinni og í áttina að bílaplaninu þar sem lögreglumenn voru. Meðal annars fundust tvö forhlöð, annars vegar í tólf metra fjarlægð frá húsinu og hins vegar tuttugu metra fjarlægð. Forhlöðin eru úr plasti og skjótast úr haglabyssum þegar hleypt er af og ýta höglunum út úr hlaupinu. Forhlaðið missir fljótlega ferðina og fellur til jarðar, enda létt og hefur mikla loftmótsstöðu. Höglin hafa því farið töluvert mikið lengra en tuttugu metra frá húsinu.

Eins og komið hefur fram skaut byssumaðurinn á lögreglumenn. Skot hans hafnaði meðal annars í hlífðarskildi lögreglumanns sem féll við það niður stiga. Maðurinn skaut síðar í höfuð lögreglumanns. Hann féll við en var með hjálm og slapp án mikilla meiðsla. Skot fóru framhjá höfðum annarra lögreglumanna.

Milli fimmtán og tuttugu lögreglumenn, auk sérsveitarmanna, tóku þátt í aðgerðinni.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert