Kallar á heildarúttekt á málinu

Hanna Birna Kristjánsdóttir, innanríkisráðherra.
Hanna Birna Kristjánsdóttir, innanríkisráðherra. mbl.is/Eggert Jóhannesson

„Ég hef þess vegna óskað eftir því innan ráðuneytisins að málið sé skoðað og tel reyndar alveg ljóst að það krefjist þess að við förum í ákveðna úttekt á málinu í heild sinni, lagarammanum, eftirlitinu og starfsemi einstakra fyrirtækja sem lýtur að þessu. Málið er auðvitað það að við verðum að geta tryggt öryggi í fjarskiptum, öryggi í samskiptum á netinu. Það er brýnt og stórt mál sem við verðum að taka mjög alvarlega.“

Þetta sagði Hanna Birna Kristjánsdóttir innanríkisráðherra í umræðum á Alþingi í dag um gagnalekann hjá fjarskiptafyrirtækinu Vodafone um helgina og hvernig bregðast ætti við honum. Katrín Jakobsdóttir, formaður Vinstrihreyfingarinnar - græns framboðs, spurði ráðherrann út í lagarammann í þessum efnum og hvort endurskoða þyrfti þau lög í ljósi lekans hjá fyrirtækinu. Ennfremur hvort farið yrði í einhverjar aðgerðir gagnvart Vodafone vegna málsins og gripið til einhverra viðurlaga vegna brota þess gegn ákvæðum laga um geymslu fjarskiptaupplýsinga sem óheimilt væri að gera lengur en sex mánuði.

„Málið hefur verið kært til lögreglu, eins og þekkt er orðið, fyrirtækið hefur viðurkennt að hafa brotið lög og nú fer það til meðferðar hjá til þess bærri stofnun. Ég ætla ekki að kveða upp úr um það nákvæmlega hvernig tekið verður á því, hjá þeirri stofnun, fyrir dómstólum eða hjá lögreglu. Það er annarra að gera það. Ég tek hins vegar undir það og það eru viðbrögð ráðherra og ráðuneytis, viðbrögðin eru þau að þetta krefst þess að við förum yfir ferlið allt, að við förum yfir lagarammann, að við förum yfir eftirlitið og við förum yfir það hvernig okkur tekst best að tryggja netöryggi í landinu. Það er það sem við stöndum frammi fyrir,“ sagði ráðherrann ennfremur.

Katrín Jakobsdóttir, formaður VG.
Katrín Jakobsdóttir, formaður VG. mbl.is/Kristinn
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert