30% drengja lesa sér ekki til gagns

Illugi Gunnarsson menntamálaráðherra og Gunnar Bragi Sveinsson utanríkisráðherra.
Illugi Gunnarsson menntamálaráðherra og Gunnar Bragi Sveinsson utanríkisráðherra. mbl.is/Ómar Óskarsson

„Það eru mjög alvarleg tíðindi sem felast í niðurstöðum PISA-könnunarinnar sem var kynnt í dag,“ sagði Illugi Gunnarsson menntamálaráðherra á Alþingi í dag um PISA-rannsóknina um læsi grunnskólabarna.

„Þær sýna að þegar kemur að lestri, reikningi og náttúruvísindum erum við alls staðar fyrir neðan meðaltal OECD-ríkjanna.

Sérstaklega er það mikið áhyggjuefni að sjá það að 30% drengja geta við lok grunnskólans ekki lesið sér til gagns. Það er ekki það sama og að þeir séu ólæsir, en þeir geta ekki lesið sér til gagns. Það er hörmuleg staða fyrir þessa einstaklinga. Það er ekki gott veganesti út í lífið, að vera í þessum sporum. Það er ekki bara vandamál þeirra heldur vandamál samfélagsins alls.

Við þurfum að fara vel í gegnum okkar menntakerfi. Við þurfum að skoða menntun kennaranna, við þurfum að skoða inntak hennar, við þurfum að skoða kennsluaðferðirnar, skoða kennsluefnið. Það þarf að fara í gegnum þetta allt saman og komast að því hvar vandi okkar liggur, því hann er ærinn.“

Illugi sagði líka ástæðu til að halda því á loft sem væri gott í okkar menntakerfi. Það væri ánægjulegt og gott að nemendum liði betur í skólanum en áður og að dregið hefði úr einelti.

Illugi sagði að frá því í sumar hefði hann unnið að gerð hvítbókar þar sem lögð væri áhersla á tvo þætti, annars vegar aðgerðir til að bæta framhaldsskólann og hins vegar aðgerðir til að bæta árangur okkar í lestrarkennslu. Hann sagðist á næstu dögum ætla að funda með þeim sem væru í forsvari í menntakerfinu þar sem hann ætlaði m.a. að kynna þær hugmyndir sem hann hefði um úrbætur. Hvítbókin yrði kynnt í janúar.

Illugi óskaði eftir að fá að flytja munnlega skýrslu á Alþingi um þessi mál á næstunni.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert