Farið verður yfir aðgerðir lögreglu

Ríkissaksóknari hefur, á grundvelli 1. mgr. 35. gr. lögreglulaga nr. 90/1996, hafið rannsókn á atvikum og aðgerðum lögreglu í fjölbýlishúsinu að Hraunbæ 20 í Reykjavík, að morgni 2. desember sl. Maður sem lögregla hafði afskipti af, lést í kjölfar aðgerðanna vegna skotsára sem lögregla veitti honum.

Þetta kemur fram í tilkynningu frá ríkissaksóknara. Þar segir einnig að við rannsókn sína muni ríkissaksóknari, með aðstoð lögreglumanna við embætti sérstaks saksóknara, sbr. 3. mgr. 35. gr. lögreglulaga, taka skýrslur af lögreglumönnum sem voru á vettvangi. Farið verði yfir aðgerðir lögreglu með hliðsjón af almennum hegningarlögum, lögreglulögum og verklagsreglum ríkislögreglustjóra þegar um beitingu skotvopna er að ræða.

Atriði sem varði forsögu mannsins sem lést, handhöfn og meðferð hans á skotvopni, sem og annað er hann varðar, sé hins vegar á forræði lögreglustjórans á höfuðborgarsvæðinu að rannsaka, allt eftir því sem hann telur tilefni til.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert