Íbúð byssumannsins

Teikning af íbúð mannsins. Gluggar voru brotnir bæði í svefnherberginu …
Teikning af íbúð mannsins. Gluggar voru brotnir bæði í svefnherberginu og eldhúsinu.

Í aðgerðum lögreglunnar við fjölbýlishúsið í Hraunbæ í gær þar sem maður vopnaður byssu hélt sig, var gassprengjum skotið inn um tvo glugga íbúðar mannsins. Rúður brotnuðu bæði í svefnherbergi mannsins og eldhúsi samkvæmt meðfylgjandi teikningu. Sérsveitarmenn skutu síðar manninn og lést hann af sárum sínum á sjúkrahúsi skömmu síðar.

Einn nágranni mannsins lýsti því fyrir mbl.is í gær á meðan umsátri lögreglu stóð yfir, að hann sæi manninn liggja uppi í rúmi svefnherbergisins með byssuna. Sá nágranninn hlaup hennar vel. 

Ástæða þess að lögreglan skaut gassprengjum inn í íbúðina var sú að hún taldi að íbúar í nágrenninu og lögreglumenn væru í hættu og gerði því tilraun til þess að yfirbuga manninn með þessari aðgerð.

Hér má sjá atburðarás málsins í fyrrinótt:

Um kl. hálf eitt:

 • Nágranni manns í íbúð við Hraunbæ vaknar við gelt í hundi sínum og tengir það við að fyrsta skotinu hafi verið hleypt af.

Um kl. 3:

 • Lögreglu tilkynnt um háværa hvelli frá íbúðinni.
 • Almennir lögreglumenn sendir á staðinn til að kanna málið. Sérsveitarmenn eru þeim til aðstoðar.
 • Lögreglan opnar hurðina inn í íbúð mannsins þegar hann svarar þeim ekki.
 • Maðurinn skýtur með haglabyssu á sérsveitarmenn sem ætluðu að kalla inn í íbúðina. Skotið lendir í skildi sérsveitarmanns sem kastast aftur á bak og niður stiga og rotast.

Um kl. 5:

 • Lögregla dregur sig til baka og kallar eftir liðsstyrk.
 • Íbúðir í stigaganginum rýmdar.
 • Sjúkrabílar kallaðir á vettvang.

Um kl. 6:

 • Enn næst ekki samband við manninn.
 • Lögreglan reynir að yfirbuga hann með því að skjóta gashylkjum inn um glugga íbúðarinnar.
 • Maðurinn skýtur margsinnis út um glugga.
 • Sérsveitarmenn fara inn.
 • Maðurinn skýtur nokkrum skotum að þeim. Hittir í hjálmklætt höfuð sérsveitarmanns.
 • Sérsveitarmenn skjóta manninn og særa.
 • Lögreglumenn hefja lífsbjargandi aðgerðir og bráðatæknar úr sjúkrabílum eru kallaðir til.
 • Maðurinn fluttur á sjúkrahús þar sem hann er úrskurðaður látinn.

Um kl. 7:

 • Aðgerðum lögreglu lokið.
 • Ríkissaksóknari tekur við rannsókn málsins.
Tvær brotnar rúður í íbúð mannsins.
Tvær brotnar rúður í íbúð mannsins. mbl.is/Rósa Braga
mbl.is