„Reiður og bitur út í allt og alla“

Lögreglumaður á gangi fyrir utan fjölbýlishúsið í Hraunbæ í gærmorgun.
Lögreglumaður á gangi fyrir utan fjölbýlishúsið í Hraunbæ í gærmorgun. mbl.is/Rósa Braga

„Ég veit að hann hataði lögguna meira en allt annað. Um leið og hann sá að hún var komin þá hefur hann örugglega orðið snarbrjálaður. Lögreglan hefur þurft að hafa afskipti af honum gegnum tíðina, og svo er það örugglega hluti af ofsóknaræði hans,“ segir Sigríður Ósk Jónasdóttir um bróður sinn, Sævar Rafn Jónasson, sem lét lífið í skotbardaga við sérsveit Ríkislögreglustjóra í gærmorgun. Sævar var fæddur árið 1954.

Sævar glímdi að hennar sögn við geðsjúkdóma frá unglingsaldri. „Hann þvældist á milli stofnana og íbúða frá því hann kom heim frá Noregi fyrir um 20 árum.“

„Skil ekki hvað klikkaði“

Hún svarar því játandi þegar hún er spurð hvort einhver á vegum velferðarkerfisins hefði átt að hafa eftirlit með honum. „Að sjálfsögðu, ég skil ekki hvað klikkaði. Ég skil ekki af hverju hann var fluttur úr Starenginu þar sem hann var, þar var meira eftirlit,“ en þar er sambýli fyrir geðfatlaða.

Ástand hans segir hún hafa versnað til muna undanfarinn mánuð og að það hefði fyrir löngu átt að vera búið að koma honum inn á geðdeild. „Við systkini hans höfum ekki verið í miklum samskiptum við hann upp á síðkastið, því hann hótaði okkur öllu illu líka. Hann var ofboðslega reiður og bitur út í allt og alla, samfélagið, lögguna, allt,“ segir Sigríður.

„Hann var ekki á neinum lyfjum og var ekki látinn ganga til geðlæknis. Það var bara eins og kerfið væri að losa sig við hann. Það bara brást honum á ögurstundu. En það voru svo mörg ljós sem blikkuðu að ég skil ekki af hverju það var ekki hægt að grípa inní. En kerfið ræður ekki við þetta,“ segir Sigríður.

Hún segir að Sævar hafi tvívegis verið sviptur sjálfræði og settur á geðdeild. „Hann varð brjálaður yfir því og brjálaður við þá sem gerðu það, okkur systkini hans. Meðan hann tók lyfin var hann samt allt í lagi, ekkert reiður og talaði voða lítið um lækna og löggur.“

Bölvaði löggum og geðlæknum

„Fyrstu merki um að eitthvað væri að fara að gerast voru þegar hann fór að bölva löggunni og geðlæknunum. Það er dálítið síðan það fór að gerast, en síðustu daga magnaðist þetta.“

Sigríður segist gruna að hann hafi verið í neyslu fíkniefna, en sjónarvottar bera, að hann hafi verið í annarlegu ástandi þegar hann ók bíl sínum í Hraunbæinn að kvöldi sunnudags. „Þegar maður í þessu ástandi er kominn á þann stað, þá er voðinn vís.“

„Hann var ekkert í neyslu eftir að hann var fluttur heim frá Noregi fyrr en bara núna,“ en hann var nauðungarfluttur frá Noregi í kjölfar þess að hann komst í kast við lögin þar í landi. „Eftir það, frá því í kringum 1986, þvældist hann um í kerfinu. Okkur í fjölskyldunni þykir þetta allt mjög miður,“ segir Sigríður.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert