Ágreiningur um meint lögbrot Vodafone

Fulltrúar Póst- og fjarskiptastofnunar, ríkislögreglustjóra og Persónuverndar á fundi samgöngu- …
Fulltrúar Póst- og fjarskiptastofnunar, ríkislögreglustjóra og Persónuverndar á fundi samgöngu- og umhverfisnefndar Alþingis um Vodafone málið. mbl.is/Ómar Óskarsson

Vafi er á því hvort Vodafone hafi gerst sekt um lögbrot, með því að geyma sms-skilaboð sem send voru í gegnum vefsvæði. Talsmenn Vodafone segja það óskýrt í lögum hvort vefsíður falli undir fjarskiptalög, og hvort það eigi þá aðeins við um vefsíður fjarskiptafyrirtækja eða annarra fyrirtækja líka.

Póst- og fjarskiptastofnun telur hinsvegar að reglurnar nái yfir vefkerfi fjarskiptafyrirtækja.

„Þarna er ákveðin óvissa og vafi sem er mikilvægt að skera úr um,“ sagði Hrannar Pétursson, upplýsingafulltrúi Vodafone, á fundi hjá umhverfis- og samgöngunefnd Alþingis í morgun.

Megináherslan á öryggi fjarskiptakerfisins

Einhverjir viðskiptavinir Vodafone hafa kært fyrirtækið fyrir að geyma sms-skilaboð þeirra sem hakkari komst svo yfir og birti opinberlega. Eftir á að koma í ljós hvort úr því verði dómsmál, en ágreiningur er um hvort Vodafone gæti talist skaðabótaskylt vegna lögbrots.

Hrannar benti á að Póst- og fjarskiptastofnun hafi m.a. verið gagnrýnd fyrir að hafa ekki haft eftirlit með vistun Vodafone á upplýsingum. Hann sagði að þeim til varnar mætti benda á að heimasíður fjarskiptafyrirtækja séu ekki skilgreindar sem hluti af fjarskiptakerfum.

Tæknistjóri Vodafone, Kjartan Briem, ítrekaði að megináhersla Vodafone í öryggismálum hafi ekki verið að tryggja öryggi netsins heldur sjálfs fjarskiptakerfisins. „Við gerum vissulega stór mistök með því að á vefsvæðinu voru persónugreinanleg gögn, en við höfum gert allt sem í okkar valdi stendur til að tryggja öryggi fjarskiptasvæðisins og allar þær varnir hafa haldið.“

Reglurnar ná til tengdra kerfa

Póst- og fjarskiptastofnun hefur mál Vodafone til rannsóknar. Björn Geirsson, lögmaður PFS, sagði á fundi þingnefndarinnar í morgun að stofnunin telji reglur um persónuvernd í fjarskiptum einnig ná yfir vefkerfi Vodafone.

„Það er rétt að þessi vefkerfi eru ekki hluti af eiginlegum fjarskiptanetum, en á hinn bóginn segir að reglurnar taki til tengdra upplýsingakerfa,“ benti hann á.

Björn sagði á að þegar vefsíða sé notuð til að skrifa skilaboð sem síðan fari um fjarskiptanetið þá hljóti það að teljast tengd kerfi. „Þannig að í okkar skilningi falla þessar upplýsingar og varðveisla á þeim undir reglurnar.“

Þá kom fram í máli Sævars Freys Þráinssonar, forstjóra Símans, að Síminn líti svo á að sömu reglur gildi um vefsíðuna eins og fjarskiptakerfið þeirra almennt.

Frétt mbl.is: Líkti tölvuþrjótnum við vítisengil

Hrannar Pétursson upplýsingafulltrúi Vodafone á fundi þingnefndar í morgun.
Hrannar Pétursson upplýsingafulltrúi Vodafone á fundi þingnefndar í morgun. mbl.is/Ómar Óskarsson
Haraldur Einarsson og Höskuldur Þór Þórhallsson, þingmenn Framsóknarflokksins, á fundi …
Haraldur Einarsson og Höskuldur Þór Þórhallsson, þingmenn Framsóknarflokksins, á fundi samgöngu- og umhverfisnefndar í morgun. mbl.is/Ómar Óskarsson
mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert