Ákærður fyrir að hrista barn sitt

Stúlkan lést af völdum blæðingar í heila.
Stúlkan lést af völdum blæðingar í heila. Kristinn Ingvarsson

Ríkissaksóknari hefur gefið út ákæru á hendur karlmanni á þrítugsaldri vegna andláts fimm mánaða dóttur hans í mars síðastliðnum. Maðurinn er ákærður fyrir stórfellda líkamsárás með því að hrista dóttur sína svo harkalega að hún hlaut blæðingu í heila sem leiddi til dauða hennar.

Hinn 20. mars sl. greindi lögreglan á höfuðborgarsvæðinu frá því að karlmaður á þrítugsaldri, faðir barnsins, hefði verið úrskurðaður í gæsluvarðhald vegna rannsóknar á andláti fimm mánaða gamals stúlkubarns. Atvikið átti sér stað sunnudagskvöldið 17. mars sl. þegar stúlkan var ein heima með föður sínum.

Bráðabirgðaniðurstaða réttarlæknisfræðilegrar rannsóknar benti til að barnið hefði látist af völdum blæðinga í heila eftir að hafa verið hrist harkalega, eða svokallað „shaken baby syndrome“.

Faðirinn var þá þegar úrskurðaður í farbann sem hefur ítrekað verið framlengt síðan.

Ákæran í málinu fæst ekki afhent þar sem ekki er útilokað að þinghöld verði lokuð í málinu. Hins vegar hefur fengist staðfest hjá ríkissaksóknara að sakarefnið er heimfært undir ákvæði 2. mgr. 218. gr. almennra hegningarlaga. Í því segir: „Nú hlýst stórfellt líkams- eða heilsutjón af árás eða brot er sérstaklega hættulegt vegna þeirrar aðferðar, þ. á m. tækja, sem notuð eru, svo og þegar sá, er sætir líkamsárás, hlýtur bana af atlögu, og varðar brot þá fangelsi allt að 16 árum.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert