„Eldstrókur stóð upp úr strompinum“

Ægir Jónsson, skipstjóri á Goðafossi, hefur verið yfir 40 ár …
Ægir Jónsson, skipstjóri á Goðafossi, hefur verið yfir 40 ár til sjós. Hann stýrði skipinu þegar eldur kviknaði í skipinu 11. nóvember sl. mbl.is/Árni Sæberg

„Þegar ég lít aftur sé ég að það stendur eldstrókur upp úr strompinum. Það verður nánast sprenging.“ Þannig lýsir Ægir Jónsson, skipstjóri á Goðafossi, því þegar hann gerir sér grein fyrir að eldur er laus í skipinu. Áhöfninni tókst að slökkva eldinn, en hann kviknaði hins vegar aftur síðar um daginn.

Eldur kviknaði um borð í Goðafossi um fjögur leytið aðfaranótt 11. nóvember. Skipið var þá statt í um 70 sjómílna fjarlægð frá Færeyjum í mjög vondu veðri. Þrettán menn voru í áhöfn og þrír farþegar að auki.

„Allt í einu verður skipið uppljómað“

Ægir var beðinn um að lýsa því hvernig áhöfnin varð vör við eldinn.

„Um kl. 3 um nóttina hringdi annar stýrimaður, sem var á vakt, í mig og bað mig að koma upp. Vélstjórarnir höfðu beðið um að það yrði slegið af aðalvélinni og hægt á ferð skipsins út af einhverjum vandamálum í vélarrúmi. Veðrið var mjög vont. Þegar við  hægðum á skipinu þurftum við að snúa því upp í sjó og vind til að draga úr veltingi.

Um klukkutíma síðar sé ég allt í einu að skipið verður uppljómað. Þegar ég lít aftur sé ég að það stendur eldstrókur upp úr strompinum. Það verður nánast sprenging.“

Hvað gerir þú í þessari stöðu?

„Fyrsta verkefnið er að ræsa út alla áhöfnina. Í svona tilfellum er neyðarbjöllum hringt, en þær eru um allt skipið. Samkvæmt neyðaráætlun er ákveðinn staður aftan á skipinu þar sem allir eiga að mæta. Þegar allir eru mættir er látið vita upp í brú, en það er mikilvægt í þessar stöðu að það sé ljóst að enginn hafi orðið út undan, enginn slasast eða lokast inni. Þegar þetta er klárt hefjum við slökkvistarf. Áhöfninni er skipt niður á verkefni þannig að öllum sé ljóst hvað þeir eiga að gera.“

Skipið valt mjög mikið

Hvernig voru aðstæður til að eiga við eldinn?

„Þær voru mjög erfiðar. Skipið valt mjög mikið, enda var það frekar léttlestað. Veðrið var mjög slæmt. Það var búinn að vera suðaustan stórsjór og síðan snéri í suðvestanátt. Það má því segja að það hafi verið tvísjóa og haugasjór. Velturnar voru gríðarlega miklar. Það tók því heilmikið á að standa ölduna, hvað þá að vera með brunaslöngur sem taka mikið í.

Áhöfninni var skipt niður á þilförin alveg frá brúarþaki og niður. Sprautað var á skorsteinshúsið í þeim tilgangi að kæla það. Það var það eina sem hægt var að gera til að byrja með.“

Hvaða slökkvibúnaður er um borð til að bregðast við svona aðstæðum?

„Við erum með hefðbundinn slökkvibúnað, slöngur og fleira. Við erum með handslökkvitæki, sem eru af nokkrum gerðum og eru staðsett um allt skipið. Inn á útblásturröri fyrir aðalvélina er stórt kolsýrutæki. Síðan erum við með CO2-kerfi sem hægt er að setja í gangi, en það þýðir að við þurfum að loka ákveðnum rýmum og þar með erum við búnir að missa aðalvélina. Þá erum við í mjög slæmum málum. Að virkja það kerfi er nánast það síðasta sem við grípum til.“

Tveir menn fóru inn í skorsteininn

Gerðuð þið fleira en að kæla skorsteinshúsið?

„Já, við sendum tvo unga menn inn í skorsteininn og alveg upp í hann að innanverðu, en skorsteinn er 17-18 metra hár. Þeir voru með brunaslöngu og náðu að kæla púströrið alveg niður.

Slangan er óhemju þung þegar hún er full af sjó. Það var því nauðsynlegt að senda tvo menn upp stigann. Annar hafði það verkefni að halda undir slönguna.“

Voru þeir með súrefnistæki?

„Nei. Þeir sem reyndu fyrst að fara upp með slík tæki komust hreinlega ekki upp stigana með þau á bakinu.“

Hafði þetta mikla þýðingu við slökkvistarfið, að þeir færu þarna upp?

„Ég held að það hafi skipt höfuðmáli. Þeir voru næst hitanum. Það var gríðarlegur hiti þarna. Þeir þurftu að vera með vettlinga svo þeir myndu ekki brenna þegar þeir voru að fara upp stigana. Þeir sögðu mér eftir á, að hitinn var það mikill að þeir hefðu ekki haldist við nema vegna þess að úðinn af sjónum, sem þeir sprautuðu á púströrið, fór yfir þá og kældi þá.“

Var eldurinn bundinn við skorsteinshúsið?

„Já, hann var bundinn við skorsteinshúsið og skorsteininn, en hitinn náði alveg niður í vélarrúmið.“

Þú stöðvaðir samt ekki vélina?

„Nei, ef við hefðum gert það hefðum við verið í mjög slæmum málum. Þá hefði skipið verið stjórnlaust og hefði þá látið mjög illa í sjónum. Vélaraflið er það síðasta sem maður vill missa í þessum aðstæðum.“

Kviknaði aftur í skipinu

Hvað var það sem var að brenna í skorsteinshúsinu?

„Það er termóolía í svokölluðum afgaskatli. Það eru um 6 rúmmetrar af termóolíu á þessu kerfi. Inni í katlinum eru spíralar sem útblástur frá aðalvélinni hitar til að halda skipinu og olíutönkum heitu. Skipið brennir svartolíu og hún er svo þykk að þarf að halda hita á öllum olíutönkum svo það sé hægt að dæla henni. Þessi termóolía er með blossamark 220 gráður. Það sem hefur gerst er að útblásturinn hefur hitnað óeðlilega mikið sem leiðir síðan til þess að það verður sjálfsíkveikja.“

Þið náðuð að slökkva eldinn á innan við tveimur tímum, en var skipið sjófært eftir að eldurinn hafði verið slökktur?

„Já, en við vorum búnir að missa hita af öllu skipinu. Við gátum ekki hitað svartolíuna til að keyra á henni og urðum því að fara yfir á gasolíuketilinn. Við reyndum að skilja hvað hafði gerst til að átta okkur á möguleikum okkar til að komast til Íslands. Ástandið var langt því frá að vera eðlilegt.

Vélstjórarnir fóru í að hita upp svartolíu með gasolíukatli og það tók þrjá og hálfan tíma. Við töldum að þá væri að skapast eðlilegt ástand. Ég setti á stefnu til Íslands og við byrjuðum að keyra á svartolíu aftur. Skömmu seinna kviknaði hins vegar aftur eldur í skipinu. Þá var áhöfnin aftur á móti mjög fljót að bregðast við. Það voru allar slöngur, tæki og tól á staðnum, uppi á brúarþaki, niðri á dekkjunum og inni í skorsteini. Sömu tveir menn fóru þá aftur upp í skortsteininn til að slökkva. Það tók ekki nema hálfa klukkustund að slökkva seinni eldinn. Eftir það snérum við og sigldum til Færeyja.“

Æfa björgun í hverri einustu ferð

Hvað hugsaðir þú á meðan eldur brann í skipinu?

„Maður hugsar ýmislegt, en kannski mest um að enginn fari sér að voða. Maður reynir að halda skipinu eins vel upp í sjó og vind og hægt er svo að hreyfingin á skipinu sé sem minnst. Það minnkar hættu á að fólk slasist við slökkvistörf.

Það létti á mér að þetta er áhöfn sem ég er búinn að vera með í rúmlega tvö ár og þekki hana vel. Við erum með æfingar um borð í hverri einustu ferð. Það eru ekki alltaf brunaæfingar, en við æfum björgunaræfingar, maður fyrir borð, lífbátar, eldur í lest, eldur í vél, eldur í yfirbyggingu o.s.frv. Þetta er allt æft reglulega. Menn eru þjálfaðir í hverri ferð að fara í reykköfunargalla og í að nota þann búnað sem við höfum. Áhöfnin hefur öll farið í gegnum Björgunarskóla sjómanna og þekkir skipið mjög vel.

Ég var því ekkert hræddur um að eitthvað færi úrskeiðis hjá áhöfninni. Ég óttaðist hins vegar að eldurinn og hitinn yrði óviðráðanlegur.

Þegar svona staða kemur upp þá sér maður hvað það er gríðarlega mikilvægt að vera með áhöfn sem talar sama tungumálið. Það hefur verið stefna Eimskips að vera með íslenska áhöfn, en erlendis er algengast að það sé alþjóðleg áhöfn sem talar 2-3 tungumál. Það býður hættunni heim í þessum aðstæðum ef menn fara að misskilja hvern annan. Hjá Eimskip fer öll áhöfnin, ekki bara yfirmenn, á björgunarnámskeið og það er mikilvægt.“

Það hefur áður kviknað í Goðafossi. Er ekki líklegt að það sé af sömu orsökum?

„Já, það er fyrir mína tíð í skipinu. Ég get ekki dæmt um þann bruna. Það var opinn eldur. Hjá okkur varð ekki opinn eldur fyrr en leið á þegar göt opnuðust í hljóðkútinum efst í skorsteininum. En það er ljóst að í báðum tilvikum fór eitthvað úrskeiðis í þessum katli.“

„Bruni er það versta sem getur komið upp á“

Það tók fimm daga að gera við skipið í Færeyjum. Eftir viðgerð hélt það til aftur Evrópu í reglulega ferð. Ægir segir að það hafi ekki komið annað til greina hjá sér en að halda áfram með skipið.

„Mönnum var boðið að fara heim eftir að við komum til Færeyja. Það voru nokkrir sem þáðu það enda voru sumir örmagna eftir slökkvistarfið. Þetta reynir líka á menn andlega. Það voru allir góðir daginn eftir brunann, en 2-5 dögum seinna fóru menn að finna fyrir eftirköstum af því sem gerðist. Þá fóru menn að hugsa um hvernig þetta hefði geta farið ef þetta og þetta hefði gerst.“

Treystir þú Goðafossi eftir að það hefur tvisvar kviknað í honum?

„Já, það geri ég.“

Hefur þú áður fengist við bruna á sjó?

„Nei, aldrei sem betur fer. Ég er búinn að vera í siglingum hjá Eimskip í yfir 40 ár. Ég sigldi mikið til Ameríku og lenti þá m.a. í ísingu og hafís. Það eru aðstæður sem þú sérð fyrir og þú getur undirbúið þig og valið siglingaleið. Bruni er eitthvað sem þú getur ekki forðast. Hann kemur bara allt í einu. Þetta er það versta sem getur komið upp á. Í svona sjólagi er líka enga hjálp að fá. Það kemst ekkert skip að skipinu.“

Það birtust fljótlega fréttir af því sem var að gerast um borð. Hvernig heldur þú að fjölskyldum áhafnarinnar hafi liðið vitandi af ykkur í þessum aðstæðum?

„Ég hafði strax samband við Landhelgisgæsluna og í framhaldi af því við Eimskip. Starfsmenn Eimskips fóru strax í það að hafa samband við aðstandendur. Ég veit ekki betur en að það hafi náðst í allar nánustu fjölskyldur skipverja áður en fréttir af brunanum birtust.

Þetta kemur hins vegar misjafnlega við fólk. Sonur minni, sem er rafvirki, var t.d. með í áhöfninni.“

Flugvél Landhelgisgæslunnar flaug yfir Goðafoss eftir að búið var að …
Flugvél Landhelgisgæslunnar flaug yfir Goðafoss eftir að búið var að slökkva eldinn. Ljósmynd/Landhelgisgæslan
Goðafossi var á leið frá meginlandi Evrópu til Íslands þegar …
Goðafossi var á leið frá meginlandi Evrópu til Íslands þegar kviknaði í skipinu. Ljósmynd/Landhelgisgæslan
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert