Lægsti hiti á landinu síðan 8. mars 1998

Mikið frost var á landinu í gær.
Mikið frost var á landinu í gær. Ómar Óskarsson

Þegar frost mældist 31 stig við Mývatn í gærkvöldi reyndist það lægsti hiti á landinu síðan 8. mars 1998, en þá fór frostið í 34,7 stig. Lágmarkið í gærkvöldi var jafnframt það lægsta í desember á landinu síðan 27. desember 1995. Þá mældust -31,7 stig á mönnuðu stöðinni í Möðrudal.

Trausti Jónsson veðurfræðingur bendir á þetta á vefsvæði sínu. Hann segir jafnframt að Mývatnslágmarkið í gærkvöldi sé landsdægurmet fyrir 6. desember.

„Það er mjög sjaldgæft að hitinn fari niður fyrir -30 stig hér á landi. Metið er raunar -38,0 stig sem mældust bæði í Möðrudal og á Grímsstöðum á Fjöllum 21. janúar 1918,“ segir Trausti.

Nokkuð hefur hlýnað á landinu frá því í gærkvöldi og mældist á síðustu klukkustund 5,7 stiga hiti á Hvammi, en það er hæsti hiti dagsins. Mesta frost í dag mældist á Torfum, 12,1 stig.

Veðurvefur mbl.is

mbl.is
Loka