Hún fékk síma, ég fékk mandarínu

Jólasveinarnir koma fljótlega til byggða.
Jólasveinarnir koma fljótlega til byggða. Árni Sæberg

Bréf ungs drengs til jólasveinsins sem barst Neytendasamtökunum fyrr á þessu ári hefur vakið nokkra athygli á veraldarvefnum í dag, eftir að bréfið var birt á facebooksíðu samtakanna.

Það veltir drengurinn fyrir sér af hverju börn fái svo mismunandi gjafir frá sveinka og bendir á að Solla skólasystir hans hafi fengið Iphone 5 í skóinn og frændi hennar GoPro-myndavél. Bekkjarbróðir hans, Dagur Orri, fái líka reglulega nýjan tölvuleik í leikjatölvuna sína. „En ég hef bara fengið sokka, mandarínu og nýja tréliti,“ segir Halldór, sem skrifar jólasveinum.

Halldór segir sveinka að sumir í bekknum hans vilji ekki segja frá því hvað þeir fá í skóinn þegar einhver hefur fengið pakka frá jólasveininum. „Af hverju er svo misjafnt hvað við fáum í skóinn, kæri jólasveinn,“ skrifar Halldór. 

„Þegar ég spyr mömmu þá verður hún reið út í þig og þá verð ég svo leiður, því ég held að þetta sé bara óvart að þú gerir þetta,“ segir í bréfi Halldórs. „Vonandi getur þú kannski lagað það því ég veit að mamma yrði svo glöð ef allir fengju jafnmikið í skóinn.“

Sjálfur segist Halldór alveg vilja fá hljómborð eða ipod en mamma hans geti ekki einu sinni gefið honum það í jólagjöf því hún eigi svo lítinn pening.

„En ég er búinn að vera mjög góður alla vikuna. Ég legg á borðið á hverjum degi og vaska upp og sótti Siggu systur á leikskólann í gær. Ég hlakka til að kíkja í skóinn á morgun því ég trúi á þig,“ skrifar Halldór.

Fyrsti jólasveinninn kemur til byggða næstkomandi miðvikudagskvöld og má því gera ráð fyrir að bréfið hafi verið ritað á síðasta ári þegar sveinarnir voru á ferðinni. Neytendasamtökin vilja benda jólasveinunum á að gæta hófsemi þegar kemur að gjöfum í skóinn. Foreldrar geti síðan gefið börnum sínum hvað sem er í jólagjöf á aðfangadagskvöld.

Hér á neðan má sjá bréf Halldórs til sveinka.

Bréfið sem barst Neytendasamtökunum fyrr á þessu ári.
Bréfið sem barst Neytendasamtökunum fyrr á þessu ári. Neytendasamtökin
mbl.is