Standa við hækkun skólagjalda

Háskóli Íslands.
Háskóli Íslands. mbl.is/Kristinn Ingvarsson

Meirihluti efnahags- og viðskiptanefndar leggur til að staðið verði við hækkun skráningargjalda fyrir háskóla. Í fjárlagafrumvarpinu er gert ráð fyrir að skráningargjöld í háskóla hækki úr 60 þúsund í 75 þúsund krónur, eða sem nemur 200 milljónum á næsta ári.

Í álitinu kemur fram að hækkunin hafi sætt tvenns konar gagnrýni. Annars vegar var hækkun skráningargjalds gagnrýnd þar sem gjaldið hefði hækkað mikið á undanförnum árum. Kom sú skoðun m.a. fram að slíkar hækkanir torvelduðu jöfnun tækifæra til náms. Hins vegar var gagnrýnt að ekki væri gert ráð fyrir að hækkunin skilaði sér nema að litlu leyti til Háskóla Íslands þar sem framlag til hans væri lækkað samkvæmt fjárlagafrumvarpi fyrir árið 2014 samanborið við framlag líðandi árs.

Nefndin bendir á að gagnstæð sjónarmið hafi einnig borist, sumir hafi talið hækkunina of litla og að nemendur opinberra háskóla greiddu of lítinn hluta námskostnaðar.

„Í almennum athugasemdum við frumvarpið er hækkunin rökstudd með vísan til óskar ríkisháskólanna um hækkun skrásetningargjalda. Sú ósk er aftur rökstudd með rauntölum frá Háskóla Íslands og Háskólanum á Akureyri að teknu tilliti til verðlagsbreytinga. Að mati meirihlutans er hækkunin studd sterkum rökum. Brýnt virðist orðið að koma til móts við fjárþörf opinberra háskóla. Með hvaða hætti það verður gert eru menn þó ekki sammála um. Telur meirihlutinn að hækkun skólagjalda kunni að hvetja námsmenn til að nýta betur það nám sem opinberir háskólar bjóða upp á,“ segir í nefndarálitinu 

Frétt mbl.is: Skráningargjöld í háskóla hækka

mbl.is