Fjárlögin aftur í nefnd

mbl.is/Hjörtur

Hlé verður gert á kvöldfundi Alþingis klukkan 22.00 en þá mun fjárlaganefnd koma saman á ný og afgreiða frumvarpið á ný úr nefndinni eftir aðra umræðu. Frá þessu greindi Einar K. Guðfinnsson, forseti Alþingis, nú fyrir stundu.

Ákveðið var að gera hlé á fundi Alþingis rétt fyrir kl. 21.00 í kvöld, þar sem nú fer fram önnur umræða um fjáraukalög. Vigdís Hauksdóttir, formaður fjárlaganefndar, hafði meðal annars skorað á forseta að úrskurða um hvort nefndin hefði brotið þingskapalög en nokkrir þingmenn stjórnarandstöðunnar höfðu áður sagt að gengið væri í berhögg við lög með því að afgreiða málið úr nefndinni án nefndarálits. 

Fjárlaganefnd kemur því saman á ný á eftir og er stefnt að því að afgreiða málið á ný úr  nefndinni. Stefnt er að því að önnur umræða um fjárlög næsta árs fari fram á föstudaginn.

Frétt mbl.is: Fjárlögin tekin úr nefnd

mbl.is